Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 20:18:49 (1800)

2002-11-27 20:18:49# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[20:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að gera orð síðasta ræðumanns að mínum. Meðferð hæstv. ríkisstjórnar á Ríkisútvarpinu gegnum tíðina er auðvitað búin að vera til háborinnar skammar. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og endurtek það með gleði að Sjálfstfl. hefur í raun og veru lagt Ríkisútvarpið í einelti --- það er hárrétt hugtakanotkun --- og með margvíslegum hætti, ekki bara fjárhagslegu svelti, heldur líka stjórnunarlega og hvað varðar starfsskilyrði og allt andrúmsloft í kringum þessa stofnun. Í raun og veru er nánast verið að kyrkja hana í greip sinni enda er ástandið þar, eins og allir vita, bullandi fjárhagserfiðleikar, stofnunin rekin á yfirdrætti og ábyggilega ekki starfsandi eins og hann gæti bestur orðið enda varla von á því við slíkar aðstæður.

Það er orðið nokkuð framorðið í þessari umræðu, herra forseti, og ég ætla ekki að lengja hana mikið. Félagar mínir hafa hér á undan mér gert mjög rækilega grein fyrir viðhorfum okkar, fyrst og fremst auðvitað framsögumaður okkar og nefndarmaður í fjárln., hv. þm. Jón Bjarnason, og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi einnig það sem hér bar á góma áðan, þ.e. Ríkisútvarpið og stöðu þess.

Mitt erindi hingað er fyrst og fremst að mæla fyrir brtt. minni um þróunarsamvinnu og hjálparstarfsemi þar sem ég sting upp á því við hv. Alþingi að menn geri betur en meiri hluti ríkisstjórnarinnar leggur til í frv. sínu.

Ég vil aðeins nefna áður að það kemur mér þannig fyrir sjónir, herra forseti, að vinnubrögð séu um margt jafnvel óskipulegri en þau hafa stundum áður verið við fjárlagagerð og undirbúning meiri háttar ríkisráðstafana, framkvæmda og útgjalda á komandi árum. Þetta er auðvitað þvert á það sem menn hafa ætlað sér með endurskoðun laga, með setningu löggjafar um fjárreiður ríkisins og ýmsum ráðstöfunum sem kannski sérstaklega á undanförnum 10--15 árum hafa átt að miða að því að ná betri tökum á ríkisfjármálum, koma afgreiðslu fjáraukalaga í fastar skorður, afnema aukafjárveitingar í raun nema sem hreint neyðarúrræði og þar fram eftir götunum. Svo blasir það við hverjum manni að þrátt fyrir meint góðæri og góðan ríkisbúskap, sem stjórnarliðar guma nú ekki svo lítið af, eru skekkjurnar í fjárlagagerðinni jafnvel meiri en oft áður þegar óstöðugleiki í efnahagsmálum og óvissa var miklu meiri, og jafnvel verðbólga miklu meiri skekkjuvaldur en nú er. Það þarf ekki að nefna nema dæmið um heilbrigðiskerfið til að sanna þetta. Er það ekki dálítið svakalegt að það skuli þurfa á þriðja milljarð króna inn í Landspítala -- háskólasjúkrahús til að rétta það fyrirbæri af? Og hvers vegna er svo unnið að þessu þannig af meiri hluta fjárln. að allt í einu birtast hér við 2. umr. fjárlagaúrræði gagnvart sumum heilbrigðisstofnunum en öðrum ekki? Ég man ekki eftir þessu nýmæli áður í fjárlagavinnu. Og ég spyr reynda menn sem hafa setið í fjárln.: Muna þeir eftir því áður að málaflokkur eins og um stærstu heilbrigðisstofnanirnar sé tekinn og klofinn þannig upp að það komi hér tillögur um eina stofnun en ekki aðrar? (GE: Nei.) Það er óvenjulegt.

Það er margt fleira þarna sem mætti nefna. Framhaldsskólinn hefur ýtt á undan sér skuldaklafa, vaxandi skuldasöfnun í einstökum stofnunum ár eftir ár. Þetta vita allir. Af hverju er ekki tekið á því? Hvers vegna er skólastjórnendum haldið upp við vegg ár eftir ár með vaxandi skuldahala? Er það gert í pólitískum tilgangi til að hafa meiri tök á þessum rekstri? Ja, það er von að spurt sé.

Ég vil einnig, herra forseti, gagnrýna þá meðferð sem samgöngumál og byggðamál fá við þessa fjárlagaafgreiðslu; samgöngumálin vegna þess að hæstv. samgrh. hefur ekki komið því í verk sem hann lofaði, að leggja fyrir þingið í haust tillögu að endurskoðaðri heildstæðri samgönguáætlun. Það var ekki blásið í svo litla lúðra þegar nál. var fyrst kynnt um nýja vinnu í þessum málum, nú skyldi brotið í blað, það átti að vinna þetta heildstætt. Ein heildstæð samgönguáætlun, var sagt. Hvar er hún, formaður fjárln.? Af hverju liggur hún ekki hér fyrir þegar farið er að fjalla um fjárveitingar til samgöngumála á næsta ári? Það er allt bara skrifað í skýin.

Byggðamálin, ég var að reyna að fara aðeins yfir þau. Hvar sér hinnar nýju byggðaáætlunar stað? Hvar eru fjárveitingarnar til að uppfylla þau loforð og standa undir þeim væntingum sem þar voru gefnar? Ég finn þær ekki í fjárlagafrv. Meðferðin á t.d. atvinnuþróunarfélögum landshlutanna er neðan við allar hellur, og þau hafa hangið í lausu lofti án samninga um fjármál sín og grundvöll núna á þriðja ár líklega. Svo þykjast þessir menn eiga upp á dekk í byggðamálum. Skárri eru það nú ósköpin. (GE: Ósjóhræddir?)

Ég man t.d. ekki eftir því að menn hafi staðið áður frammi fyrir því að það væru að koma jól og vegamálin væru í jafnfullkominni óvissu og nú er, engin fyrirliggjandi vegáætlun sem verður í gildi eftir áramót. (GE: Það á að koma sæstrengur.) Hvernig á þá að loka fjármálunum?

Staðreyndin er auðvitað sú, herra forseti, þótt ég ætli ekki að fara að eyða í það löngu máli hér tímans vegna, að ég hef miklar áhyggjur af stöðu ríkisfjármálanna og þjóðarbúskaparins, og ég tel að full tilefni séu til. Ég veit að þetta er eins og einhver rödd hrópanda í eyðimörkinni vegna þess að það er svo ofboðslegt góðæri og allt gengur svo vel. Ég verð nú að játa það hreinlega að stundum eru ekki meiri vísindi fyrir skoðunum manns eða viðhorfum en eiginlega tilfinning og hún hefur iðulega ekki reynst verri en hvað annað. Og ég verð því miður að segja að ég hef að mörgu leyti þá tilfinningu að ástandið núna sé óskaplega brothætt. Það er vegna þess að þjóðarbúið var látið vaða hér á súðum, gríðarlegum skuldum var safnað í útlöndum og í þjóðfélaginu eru skuldsettir aðilar sem eru í raun og veru sjálfar undirstöður samfélagsins; fjölskyldurnar, atvinnulífið og sveitarfélögin. Við erum með á herðunum, hvað sem hver segir, yfir 200 milljarða uppsafnaðan viðskiptahalla frá síðustu árum, og hann tekur í. Hann þarf að borga. Og ekki bara hann, heldur vextina af honum á meðan verið er að borga hann niður.

Árangurinn í ríkisbúskapnum er þrátt fyrir allt ekki glæsilegri en svo að það er svona rétt að það sleppi að ríkissjóður sé núna þrjú ár í röð rekinn á núlli þegar við drögum eignasöluna frá. Það er allt og sumt. Og það er gamalkunnug aðferð sem þjóðin veit alveg hvernig fer fram, að éta upp eignir sínar. Það er hægt að hafa það ágætt á meðan menn éta upp eignir sínar. Ég þekki einn rithöfund sem át upp íbúðina sína og skrifaði á meðan. Hann lifði af því í nokkur ár en svo var hann náttúrlega búinn með íbúðina, og þá var engin íbúð.

Þetta er vandinn, hv. þm., formaður fjárln., þetta er vandinn við að lifa á eignum sínum, sami hluturinn verður ekki seldur nema einu sinni, svona yfirleitt ekki í viðskiptum þó að menn hafi stundum reynt annað.

Herra forseti. Svo að utanríkismálunum, sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í lokin, og útgjöldum til utanríkismála af því að þetta er fjárlagaumræða. Það er nefnilega þannig, herra forseti, að ekkert eitt ráðuneyti hefur þanist jafnmikið út á undanförnum árum og utanrrn. Ég hygg að það sé rétt jafnvel þó að heilbrrn. sé tekið með og menn tali um að þar hafi útgjöld aukist. Það hafa þau auðvitað gert enda gerist það alls staðar í heiminum þar sem menn eru að taka inn nýjungar í læknisfræðum, tækjum, lyfjum og öðru slíku. En utanrrn. íslenska hefur þanist mjög út. Og menn eins og hv. þm. Pétur Blöndal hafa stutt þetta með ráðum og dáð og greitt því atkvæði sitt hér á hverju ári að undanförnu. Það eru á þessu sumpart gildar skýringar sem ég deili ekki um. Ég hef t.d. verið stuðningsmaður þess að við efldum utanríkisþjónustu okkar á vissum sviðum, viðskiptaþættinum, jafnvel opnuðum ný sendiráð þó að sum þeirra hafi reynst hrikalega dýr. Maður fékk hálfgerðan móral yfir því að hafa einhvern tíma talað jákvætt um að opna sendiráð í Japan þegar reikningurinn kom.

En svo hefur annað gerst í utanrrn. sem ég er ekki jafnhrifinn af, og það er að það sem síst skyldi hefur mætt afgangi. Ég væri mjög stoltur ef framlög Íslands til þróunarsamvinnu hefðu aukist að raungildi hlutfallslega eins og önnur útgjöld ráðuneytisins en það hafa þau ekki gert. Þau eiga að standa í stað fjórða árið í röð þvert á gefin loforð um hið gagnstæða. Ísland ætlar að vera áfram í skammarkróknum með því þróaða landi innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem gerir verst í þessum efnum, þ.e. Bandaríkjunum, og verja þriðja, ef ekki fjórða, árið í röð um 0,1% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu. (Gripið fram í: Aftast á merinni.) Ef við förum yfir allan málaflokkinn, Þróunarsamvinnustofnun, neyðaraðstoð og undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna samkvæmt ákveðnum skilgreiningum, og drögum út úr það sem uppfyllir skilyrðin um að teljast þróunaraðstoð eru það um 0,1%, sennilega um 800 millj. af 800 milljarða landsframleiðslu. Og það er aðeins ein þjóð sem er á sambærilegu lífsgæða- eða tekjustigi og Ísland í heiminum sem leggur svona lítið af mörkum, Bandaríki Norður-Ameríku sem eru slóðinn í þessum efnum, og sem þau liggja auðvitað undir ámæli fyrir.

Þetta er mjög dapurlegt, herra forseti, á sama tíma og menn hafa peninga í gæluverkefni eins og Schengen. Ég aflaði upplýsinga í utanrmn. um hvað það gæluverkefni kostar. Það eru tugir milljóna sem embættin í Keflavík ein og sér fá í aukinn rekstrarkostnað núna milli ára vegna Schengen. Þá eru til peningar. Og þegar þarf að halda NATO-fund eru til 300--500 millj. Og þegar menn þurfa nesti á borðið með sér í Prag er hægt að lofa mörgum hundruðum milljóna án þess að hafa nokkurs staðar borið það upp í íslenska stjórnkerfinu, án þess að hafa rætt það við utanrmn. Ég spyr: Var það kynnt í stjórnarflokkunum? Lá meiri hlutinn fyrir þegar ávísunin var skrifuð úti í Prag? Ég er ekki viss um það. Og svo eru samningarnir sem þetta á að byggja á þannig að það eru jafnmargar túlkanir á innihaldi þeirra eins og mennirnir sem hafa talað um þá; forsrh. og utanrrh. eru ósammála, Flugleiðir eru ósammála þeim og svo kom fjórða sjónarmiðið fram hjá ráðuneytisstjóra utanrrn. á þessum samningi sem reyndar enginn maður hefur séð og ekkert liggur fyrir um á hvaða formi er eða hvort yfir höfuð hefur litið dagsins ljós, undirritaður sem slíkur.

[20:30]

Ég, herra forseti, hef leyft mér að leggja það til í breytingartillögu að við rekum af okkur slyðruorðið, svona pínulítið, og hækkum framlög Íslands til þróunarsamvinnu og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi um sömu upphæð og höfð\-ingjarnir lofuðu í Prag, 300 millj. kr. Við gætum t.d. gert það þannig að Þróunarsamvinnustofnun fengi 200 millj. kr. aukna fjárveitingu á næsta ári. Í liðinn Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi á að leggja heilar 18,5 millj. samkvæmt fjárlagafrv., það er það sem ríkisstjórnin hugsar sér að hafa á fjárlögum næsta árs, hv. formaður fjárln., til að eiga upp á að hlaupa í alþjóðlegri hjálparstarfsemi og þróunarmálum. Það er minna en Rauði krossinn safnaði á einu kvöldi. Ég held að vandamálið sé ekki viðhorf almennings á Íslandi til að betur sé gert í þessum efnum.

Vita þeir það, höfðingjarnir sem leggja þetta fyrir þjóðina, að 800--1.200 millj. manna svelta upp á hvern einasta dag í heiminum, 800--1.200 millj. manna búa að staðaldri við vannæringu. Svona er nú ástandið en ein mesta velmegunarþjóð heimsins, Íslendingar, sem eru í 4.--6. sæti hvað varðar þjóðartekjur á mann, telur sér sæma að hreyfa ekki þennan lið árum saman. Ár eftir ár er hann frosinn fastur og hækkar ekki neitt þrátt fyrir gefin loforð.

Þessi tillaga mín, herra forseti, á þskj. 488, gengur sem sagt út á þetta, að liðurinn Þróunarsamvinnustofnun Íslands hækki úr 433,1 millj. í 644,1 og liðurinn Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, Mannúðarmál og neyðaraðstoð, hækki úr 18,5 millj. í 118,5.

Haldi einhver því fram að vandamál sé að koma þessum peningum í lóg þá segi ég hann fara með rangt mál. Þróunarsamvinnustofnun getur í samstafi við aðrar stofnanir ráðstafað þessu fé þó að hún sé kannski ekki tilbúin með verkefni til þess sjálf að öllu leyti á næsta ári. Það er ekkert vandamál að ráðstafa þessum fjármunum og miklu meira í gegnum viðurkenndar alþjóðastofnanir, þess vegna í gegnum Rauða krossinn eða aðra slíka aðila. Ég vona að enginn beri það hér á borð að það sé ekki hægt að hækka þessa fjármuni vegna þess að svo mikinn undirbúning þurfi til að koma þeim í lóg. Ég hef stundum heyrt þær viðbárur þegar menn í vandræðum sínum eru að reyna að afsaka þessa skammarlegu frammistöðu sem ég verð að segja að mér hefur sviðið ákaflega þau tæplega 20 ár sem ég hef verið á Alþingi.

Ég hef á hverju einasta ári reynt að hreyfa því að þetta væri lagfært. Þó er það sérstaklega þegar maður kemur út fyrir landsteinana sem maður skammast sín vegna þess að systurþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum njóta álits um allan heim vegna þess að þær eru yfirleitt, kannski fyrir utan Hollendinga, þær einu sem uppfylla skuldbindingar Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum að fullu og sumar þeirra hafa reyndar gert betur. Bæði Danir og Norðmenn hafa þegar best lætur lagt meira af mörkum en hin umsömdu viðmið Sameinuðu þjóðanna ganga út frá. Það halda margir, því miður, að Íslendingar sem eitt Norðurlandaríkið geri þetta líka. Síðast fyrir nokkrum dögum, úti í Póllandi, neyddumst við í utanríkismálanefnd Alþingis til að leiðrétta þann misskilning, því miður væri það ekki svo, Ísland gerði miklu lakar en hin Norðurlöndin sem hrósað var fyrir góða frammistöðu í þessum efnum.