Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:29:39 (2012)

2002-12-03 15:29:39# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði á þessar afsakanir ráðherra eins og aðrir þingmenn en ég stend við þau orð mín að mér finnst þetta kerfi hafa verið allt of svifaseint og lengi að taka við sér í þessum efnum. Það hefur þurft utanaðkomandi þrýsting til að koma þessum málum á hreyfingu, það bara liggur fyrir, og kerfið hefur verið mjög svifaseint, við hvern sem þar er aðallega að sakast. Ég tel að ábyrgðin hvíli fyrst og fremst á umhvrn. sem fer með þessi mál og það er náttúrlega ekki þannig að umhvrn. sé bara stikkfrí þangað til einhverjar tillögur berast úr einhverjum undirstofnunum þess um að eitthvað þurfi að gera. Ég veit ekki betur en að rignt hafi yfir umhvrn. óskum um það undanfarin tvö, þrjú ár. Fyrir einum þremur árum voru menn meira að segja farnir að tala um að það væri óumflýjanlegt að setja rjúpuna á válista. Það er þá fyrst í haust sem Náttúrufræðistofnun ákveður það og villidýranefnd afgreiðir þetta mál hjá sér.

Það verður auðvitað bara að segja hlutina eins og þeir eru. Það er vitað að það hefur verið ágreiningur um þetta, sumpart hálffræðilegur eða faglegur ágreiningur þar sem t.d. veiðistjóri hefur fram undir það síðasta ekki verið talsmaður þess að takmarka þyrfti veiðar, og menn hafa deilt um það hvernig ætti þá að gera það. Sumir segja að stytting veiðitímans framan af hafi lítið sem ekkert upp á sig því dánartíðnin sé svo há hjá rjúpunni á þeim tíma og þar fram eftir götunum. Þessi þræta hefur kyrrsett allt í kerfinu í ein tvö ár og það er það sem ég hef gagnrýnt, að ég tel með fullum rétti, og ég stend við hvert orð sem í greinargerð þáltill. minnar stendur.