Ættleiðingar

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:12:26 (2103)

2002-12-04 18:12:26# 128. lþ. 46.14 fundur 379. mál: #A ættleiðingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:12]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég legg sérstaka áherslu á að í öllum málum þar sem stjórnvöld þurfa að taka ákvarðanir sem snerta börn skal, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, láta það hafa forgang sem barni er fyrir bestu. Þetta er meginreglan. Mér er hins vegar fullljóst að hér er um viðkvæm mál að ræða og mér kemur það ekki á óvart að hv. þm. kunni að þykja fullmiklar skorður á heimildum til ættleiðinga með tilliti til þeirra barna sem búa við bág kjör í sínu heimalandi. Þá er hins vegar rétt að hafa í huga að eftirspurnin hér á landi eftir börnum til ættleiðingar er langt umfram það sem okkur stendur til boða, jafnvel þótt unnið hafi verið að því að auka möguleikana, svo sem með nýlegu samkomulagi við Kína um ættleiðingar.

Við höfum gerst aðilar að svokölluðum Haag-samningi um ættleiðingar eins og hv. þingmönnum er kunnugt um, og við höfum einnig leitast við að tryggja þessu sviði, eins og mörgum öðrum sviðum einkaréttarins, samræmi milli löggjafar okkar og nágrannaríkjanna. Uppbygging okkar réttar um ættleiðingar tekur því einnig að miklu leyti mið af þessari viðleitni og alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði. Það er ekki hægt að ræða einstök mál án þess að hafa þetta í huga.

Ég þakka að lokum fyrir málefnalega umræðu um þetta viðkvæma viðfangsefni.