Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:29:03 (2109)

2002-12-04 18:29:03# 128. lþ. 46.15 fundur 341. mál: #A úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt í fyrsta lagi: ,,Hve mörg mál hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fengið til umfjöllunar frá gildistöku skipulags- og byggingarlaga 1. janúar 1998?``

Því er til að svara að úrskurðarnefndin hefur fengið samtals 310 mál til meðferðar sem skiptast þannig eftir árum:

Árið 1998 46 mál, 1999 60 mál, 2000 81 mál, 2001 61 mál og það sem af er yfirstandandi ári 62 mál. Þetta eru samtals 310 mál.

[18:30]

Í öðru lagi er spurt: ,,Hve mörg mál hefur úrskurðarnefndin afgreitt á sama tíma?``

Því er til að svara að nefndin hefur frá upphafi til dagsins í dag afgreitt 220 mál. 90 málum er því ólokið.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hver er afgreiðslutími mála hjá úrskurðarnefndinni að meðaltali og hver á hann að vera samkvæmt lögum?``

Því er til að svara að afgreiðslutími á hvert mál frá upphafi hefur að meðaltali verið 7,4 mánuðir. Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, skal úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveða upp úrskurð í málum sem skotið er til hennar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en þrír mánuðir. Hins vegar ber að hafa í huga að menn verða auðvitað að upplýsa mál að fullu samkvæmt stjórnsýslulögum áður en þeir fella úrskurði. Þetta eru því mjög vandasöm mál.

Á fyrsta starfsári nefndarinnar 1998 voru nær öll mál afgreidd innan tveggja mánaða eða þriggja ef heimild til að lengja afgreiðslutíma var nýtt. Þetta fyrsta ár var málafjöldi viðráðanlegur. Árið 1999 fóru mál að fara fram úr tímamörkum, þó ekki verulega. Það fór hins vegar að halla verulega á árinu 2000, enda málafjöldi það ár sá mesti hingað til. Flutningur seint á árinu truflaði starfsemina einnig um tíma. Má segja að vandi nefndarinnar hafi orðið til á því ári og verið viðvarandi síðan. Ráðuneytið hefur þegar brugðist við þessu með því að auka fjárveitingar til nefndarinnar í samræmi við fjárlög.

Á síðasta ári var fjárveiting til úrskurðarnefndarinnar 9,3 millj. kr. í fjárlögum þess árs en 2 millj. kr. í fjáraukalögum. Í ár er fjárveitingin 13 millj. kr. í fjárlögum og í frv. til fjáraukalaga er gert ráð fyrir 4 millj. kr. fjárveitingu. Ekki verður annað séð á þessari stundu en að heildarfjárveiting ársins í ár dugi til að mæta útgjöldum nefndarinnar. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 14,8 millj. kr. til nefndarinnar en ráðuneytið mun á næsta ári tryggja að fjárveitingar dugi til að mæta útgjöldum nefndarinnar miðað við að nýr lögfræðingur verði í fullu starfi hjá nefndinni til ársins 2004.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Hve margir starfa hjá nefndinni?``

Því er til að svara að frá 1. janúar 1998 til 15. júní 2001 var löglærður framkvæmdastjóri eini starfsmaður nefndarinnar en þá var ráðinn ritari til starfa við skjalavörslu og fleira í 45% starf. En 1. mars 2002 var ráðinn lögfræðingur í fullt starf hjá nefndinni við úrvinnslu mála og til að aðstoða framkvæmdastjóra. Starfsliðið er því í dag tveir lögfræðingar í fullu starfi og ritari í 45% starfi.

Ég met það svo, virðulegi forseti, að í upphafi hafi menn vanáætlað hve umfangsmikil og mörg málin yrðu sem kæmu til úrskurðarnefndarinnar. Þrátt fyrir að menn hafi haldið mjög vel á spöðunum í nefndinni og staðið sig afburða vel hefur ekki tekist að afgreiða málin á þeim tíma sem æskilegt er en það mun vonandi batna núna þegar nýr lögfræðingur hefur tekið til starfa. Nefndin hefur vandað sig mikið við úrskurði sína og þeir úrskurðir sem farið hafa fyrir dómstóla hafa fallið nefndinni í vil, þ.e. hún hefur ekki verið talin fara út fyrir sitt svið eða úrskurða á rangan hátt.