Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 12:58:02 (2767)

2002-12-13 12:58:02# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[12:58]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku en eins og fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni skila ég sem nefndarmaður í iðnn. minnihlutaáliti hvað varðar þetta mál. Allir aðrir nefndarmenn í iðnn. skrifa undir álit meiri hlutans um að heimila skuli stofnun hlutafélags um Norðurorku.

Ég vil áður en ég geri grein fyrir nefndaráliti mínu átelja harðlega þann flumbrugang sem er viðhafður varðandi þetta mál. Það liggur ljóst fyrir að bæjarstjórn Akureyrar samþykkti málið fyrir sína parta í byrjun mánaðarins þannig að nægur tími átti að vera til þess að gefa Alþingi og nefndarmönnum í iðnn. svigrúm til að vinna þetta mál af kostgæfni. Málarekstur var þannig að málið kom inn í þingið í gær og haldinn var nefndarfundur í iðnn. í morgun. Þar var einungis mættur fulltrúi iðnrn. með skýringar á málinu. Að vísu voru umsagnir frá bæjarstjórn Akureyrar eða stjórn Norðurorku og Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar. Ég tel að það hefði þurft að fara yfir mjög mörg atriði og fá umræður og skýringar á þeim. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að það eru atriði eins og tenging vatnsveitunnar við þetta fyrirtæki. Ef litið er til framtíðar með hlutafélagavæðingu, þá er alveg hugsanlegt að lítill eða stór hluti þessa fyrirtækis verði seldur. Í 5. gr. laganna, eins og meiri hlutinn leggur til, er sagt: ,,Norðurorka hf. tekur við einkarétti Akureyrarbæjar og Norðurorku til starfrækslu hita- og rafveitu`` --- en síðan er að mínu mati álitamál --- ,,og yfirtekur skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu á Akureyri. Norðurorka yfirtekur þá samninga sem gerðir hafa verið um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.``

[13:00]

Reyndar hefur meiri hlutinn gert þá brtt. í nál. sínu að 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. orðist svo samkvæmt meirihlutaálitinu: ,,Norðurorka hf. yfirtekur samninga sem Norðurorka hefur gert um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.``

Það er skylda sveitarfélaga að reka vatnsveitur og tryggja aðgengi að vatni fyrir alla þegna sveitarfélaganna. Vatnsveitur heyra undir félmrn. samkvæmt lögum. Þess vegna er að mínu mati mjög mikilvægt að setja þetta skýrar fram.

Í fyrri ræðu minni gerði ég einnig að umtalsefni þann ásetning sem fram kemur í 6. gr., að stjórn Norðurorku setji gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda og að gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlist eigi gildi fyrr en þær hafi verið staðfestar af iðnrh. Þetta kemur fram í 6. gr. og var birt í Stjórnartíðindum. En það segir jafnframt í 6. gr. að gætt skuli almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár og að gjaldskrá vatnsveitu byggist á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.

Sveitarfélög sem hafa rekið hitaveitur og rafveitur hafa sem kunnugt er í mörgum tilfellum ekki sett fram ýtrustu arðsemiskröfur. Menn hafa sagt sem svo að arðsemi upp á 7% væri ásættanleg en það má velta því fyrir sér hvort ráðuneytið mundi ekki samþykkja, á grundvelli svona lagatexta, að gætt skuli almennra arðsemissjónarmiða. Með því væru menn komnir í háar tölur, ef nýir eigendur sem gætu keypt sig inn í fyrirtæki krefðust ýtrustu arðsemi mundu þeir jafnvel gæla við miklu hærri tölur en 7% sem hefur verið viðmiðunararðsemi. Þá er spurning hvort menn sætti sig við arðsemi upp á 12%, 18% eða kannski 25%, eins og sumir vilja meina að sé hæfileg arðsemi fyrir slík fyrirtæki.

Ég tel ákaflega mikilvægt fyrir íbúa á Akureyri að geta áfram notið lækkunar á orkuverði, sérstaklega frá hitaveitu. Rafveitan hefur staðið vel og afhent bæjarbúum ódýra orku. En á síðustu árum hefur hitaveitan verið að rétta sinn hag og bæjarbúar notið þess í lækkun á orkuverði til notenda. Það er ástæða til þess að staldra við ef menn ætla að fara að fylgja almennum arðsemissjónarmiðum og hvort það muni leiða til þess að gjaldskráin hækki verulega, geri menn kröfu um að fyrirtækin skili miklum arði.

Ég greindi frá því við 1. umr. að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð væri andvígt þessu frv. Ég tel að hér sé verið að rugla saman hlutum. Í umræðu um nýtt orkuumhverfi, sem er að vísu skammt á veg komin, er því haldið fram að menn skuli afmarka rekstur sinn og gera kröfu um gegnsæi þannig að menn séu ekki að blanda saman ólíklegustu hlutum. Þetta frv. til laga, ásetningurinn sem fram kemur í 3. gr., gefur klárlega annað til kynna.

Af því að hv. þm. Pétur Blöndal er kominn í salinn, sérfræðingur um lagaklæki hvað varðar fyrirtæki og fyrirtækjasamsetningar, langar mig að spyrja hann, í framhaldi af þessum bollaleggingum, hvort hann telji fyrir sína parta --- hv. þm. á sæti í iðnn. og skrifar undir þetta meirihlutaálit --- það heppilegt samkrull að blanda saman kaldavatnsveitum og öðrum orkuveitum, rafveitu og hitaveitu, eins og getið er um í 5. gr.

Síðan væri gaman og gagnlegt fyrir þingið að fá álit hv. þm. á 3. gr., varðandi tilgang Norðurorku hf. Þar kemur ýmislegt fram. Tilgangurinn er samkvæmt því orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma, vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu og búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Þetta er stór og mikill listi. Á grunni 3. gr. lítur út fyrir að þetta fyrirtæki geti haslað sér völl á nánast hvaða sviði sem er. Þá fer lítið fyrir tilganginum með öllum þessum þremur fyrirtækjum, þ.e. að afhenda kalt vatn, afhenda og framleiða rafmagn og afhenda heitt vatn til húshitunar og annars. Það er full ástæða til að velta þessum hlutum fyrir sér.

Ég hefði talið að þetta frv. hefði alls ekki átt að koma fram fyrr en hið háa Alþingi hefði afgreitt nýtt raforkulagaumhverfi. Þar stendur þingið frammi fyrir miklum breytingum. Þar eru áformaðar miklar breytingar sem, eins og ég sagði áðan, ganga í berhögg við það sem getið er um í 3. gr. þessa frv. og e.t.v. einnig að stórum hluta í 5. gr. Menn virðast þar gera ráð fyrir gagnsæi sem gerir það að verkum að ekki megi blanda saman rekstri. Sum af þeim atriðum sem getið er um í 3. gr., eins og að tilgangur Norðurorku sé að vera í viðskipta- og fjármálastarfsemi og nýsköpun af ýmsu tagi, virka einkennilega. Af hverju er ekki valin sú leið að nýta til þessa atvinnuþróunarfélög sem bærinn tæki beinan þátt í í stað þess að binda slíkan stuðning við orkufyrirtæki og vatnsveitu bæjarins?

Virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst út frá þessum atriðum sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjumst gegn því að frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku verði samþykkt. Ég segi í nál., virðulegi forseti, á þskj. 760, 457. máli, að minni hlutinn, þ.e. ég, leggist eindregið gegn samþykkt frumvarpsins. Ég tel það í grundvallaratriðum ranga stefnu að hlutafélagavæða velferðarþjónustu og stoðkerfi samfélagsins á borð við orkuveitur. Reynslan kennir að slíkt kemur notendum í koll þegar til lengri tíma er litið auk þess sem skorið er á lýðræðisleg yfirráð yfir grunnþjónustu í samfélaginu með því að breyta þjónustustofnunum af þessu tagi í hlutafélög. Frumvarpið er auk þess mjög seint fram komið og hefði þurft á miklu nánari skoðun að halda. Einnig tel ég að líta beri á að áður en ráðist er í breytingar af þessu tagi þurfi að liggja fyrir mótuð heildstæð framtíðarsýn í orkumálum landsmanna.

Virðulegi forseti. Eitt af stóru málunum í þessu samhengi er að heildarsýn á orkumálin hefði þurft að liggja fyrir. Maður skilur ekki hvers vegna keyra þarf þessi mál í gegn á örskömmum tíma. Þingmenn hafa haft einn dag til þess að meðtaka þetta frv. og á iðnaðarnefndarfundi í morgun gafst ekki ráðrúm til að kalla til þá aðila sem maður hefði viljað heyra í í þessu sambandi, t.d. fulltrúum starfsmanna. Það var bara fulltrúi frá iðnrn. sem mætti á fundinn. Við hefðum gjarnan viljað heyra í fulltrúum starfsmanna og líka ræða við bæjaryfirvöld, bæjarstjórann, formann Norðurorku og forstjóra Norðurorku svo að einhverjir séu nefndir. Ég held að það hefði verið mjög gagnlegt.

Í röksemdarfærslu með frv. er sagt að þetta sé heppilegra út af hugsanlegu samstarfi við nágrannasveitarfélög. Það hefði ekki heldur verið úr vegi að nefndin hefði fengið að heyra beint í aðilum frá Eyjafjarðarsveit, Arnarneshreppi og Svalbarðseyri svo að eitthvað sé nefnt, en þessir aðilar hafa lýst áhuga á nánari samvinnu að mér skilst við Norðurorku hvað varðar orkuafhendngu inn á þessi svæði. Raunar sinnir Vatnsveita Akureyrar þjónustu á sumum af þessum svæðum jafnvel við sveitabæi á svæðinu. Ég tel málið mjög flausturslega unnið og vil að miklu leyti skrifa það á vinnubrögð iðnrn. Það liggur ljóst fyrir að bæjarstjórn Akureyrar afgreiddi þetta mál í byrjun desember. Samkvæmt því hefði átt að vera nægur tími fyrir höndum. Mönnum var einnig kunnugt um að þessi vinna væri í gangi þannig að kynningarstarfsemin hefði eflaust getað farið fram í nóvember, ef menn hefðu viljað fá forsmekk af því sem koma skyldi. Það er alveg óþolandi að vinna með þeim hætti sem hér er lagt upp með.

Þetta er ekkert nýtt. Þetta virðist ætla að gerast á hverju ári. Á sama tíma í fyrra vorum við með formbreytingu á Orkuveitu Reykjavíkur yfir í sameignarfélag. Þar voru menn á elleftu stundu með breytingarnar og þurftu að vinna öll þau mál í hasti. Hefði verið meiri tími þá til ráðstöfunar hefðu menn kannski staðið aðeins betur að málum en raun bar vitni. Mér er hins vegar sagt að formbreytingin yfir í sameignarfélag, hvað varðar Orkuveitu Reykjavíkur, hafi í öllum aðalatriðum gefist mjög vel. Það er form sem við hjá Vinstri heyfingunni -- grænu framboði værum fremur tilbúnir að skoða, vilji menn þjóna stærri svæðum, t.d. Eyjafjarðarsvæði með Norðurorku. Eins hvers konar samvinnufélag eða samvinnurekstrarform í tengslum við önnur sveitarfélög á svæðinu hefði fremur getað komið til greina að okkar viti. Við teljum ekki nauðsynlegt að fara yfir í stofnun hlutafélags til að nýta þá möguleika sem menn eru að tala um hvað þetta varðar.

Mikið af tíma hv. iðnn. hefur farið í að ræða réttarstöðu starfsmanna. Í greinargerð með frv. er töluvert fjallað um það. Einnig barst bréf frá Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar þar sem greint var frá stöðu starfsmanna. Staðreyndin er sú að greinargerðir duga lítið þegar á hólminn er komið, eftir að lög sem þessi hafa verið samþykkt. Maður verður að ætla að góður ásetningur þeirra sem stjórna muni að einhverju leyti tryggja stöðu starfsmanna en reynslan sýnir að loforð sem þessi geta verið fallvölt. Staða starfsmanna er því tryggð, alla vega næstu árin og réttindamál þeirra í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég hef gert grein fyrir nál. minni hluta iðnn. og læt máli mínu lokið.