Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:46:48 (5325)

2004-03-15 16:46:48# 130. lþ. 83.17 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÁF
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Ásgeir Friðgeirsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir þáltill. sem er í alla staði hin merkasta. Ég tel ákaflega mikilvægt að unnin verði framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri, í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Ég held að það sé afar mikilvægt að þar komi fram, eins og kemur fram í tillögunni, skilgreining á því hver aðgangur smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu geti verið. Eins og fram kemur er jafnframt gert ráð fyrir að uppfinningamönnum, frumkvöðlum og smáfyrirtækjum verði auðveldað með kostnað varðandi einkaleyfi. Þá mætti sömuleiðis skoða hvort eitthvað megi ekki betur fara í skattalöggjöf okkar.

Allt er þetta hið besta mál. En ég vil nota þetta tækifæri til að koma að öðru máli sem þessu skylt, þ.e. heildarendurskoðun á stuðningi hins opinbera við nýsköpun, fyrirtæki, stór og smá og atvinnulífið í heild sinni. Við stöndum á þeim tímamótum að það hafa orðið mikil umskipti í íslensku atvinnulífi hvað varðar þátttöku hins opinbera á allra síðustu árum. Hið opinbera er að mestu hætt almennri atvinnustarfsemi. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur á þessum tíma að stokka spilin og skoða með hvaða hætti er eðlilegt og rétt að hið opinbera komi að stuðningi við atvinnulífið.

Ég er þeirrar skoðunar að þar skipti langmestu máli með hvaða hætti hið opinbera getur hlúð að hagnýtingu hugvits og stutt við rannsóknir og vöruþróun. Með fullri virðingu fyrir þessu ágæta máli þá held ég að það skipti ekki öllu máli í því sambandi hversu stór fyrirtækin eru eða hvort það eru smáfyrirtæki. Annað finnst mér hins vegar gilda að taka upp sértækan stuðning við t.d. kvennafyrirtæki eða svæðisbundinn stuðning.

Heildarendurskoðun sem miða mundi að því að auka stuðning við hugvitsgreinar, rannsóknir og vöruþróun, held ég sé nauðsynleg fyrir okkur að skoða í dag. Hvers vegna? Þannig er að hagvöxtur á Íslandi er öðruvísi tilkominn en hagvöxtur í flestum öðrum löndum sem við viljum bera okkur saman við. Hagvöxtur hér á landi er að stærstum hluta tilkominn vegna aukinnar nýtingar náttúruauðlinda. Hagvöxtur í nágrannalöndum okkar hefur að stærstum hluta orðið til vegna hagnýtingar hugvits.

Á síðustu 50 árum hafa rannsóknir og vísindi í Bandaríkjunum lagt til um 50% af árlegum hagvexti. Í Japan er samsvarandi framlag nærri 55% og í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi hefur þekkingarþróun skapað um 75% af árlegum hagvexti frá því um miðja síðustu öld. Grannar okkar í Finnlandi og Svíþjóð hafa náð sama marki á síðustu árum. Þessi hagvöxtur er sjálfbær og hann er æskilegur því hann gengur ekki á auðlindir jarðar. Sambærilegar úttektir hér á landi eru því miður ekki til staðar þrátt fyrir eftirgrennslan. Þó veit ég til þess að það er verið að reyna að vinna að því. En áætluð hlutdeild þekkingargreina í hagvexti hér á landi er rétt aðeins um 10%. Þetta þýðir að hagvöxtur hér á landi byggir mun meira á nýtingu náttúruauðlinda en hagvöxtur nágrannaþjóða okkar. Það má því segja að hugvit okkar Íslendinga sé ekki í askana látið líkt og hjá öðrum þjóðum.

Ég held að ef við skoðum stuðning hins opinbera við atvinnulíf í dag þá blasi við að þar skortir reglufestu. Stuðningurinn er lítt faglegur oftast ógegnsær. Ég held að við eigum að skoða starfsumhverfi og reglur um skatta og gjöld hjá atvinnufyrirtækjum í heild sinni og taka þar upp reglur sem miða að jafnri stöðu og hafa réttlæti að leiðarljósi og raska ekki samkeppnishæfni. Ef við skoðum síðan fjárstuðning hins opinbera til vísinda og rannsókna þá fer hann að stærstum hluta í gegnum stofnanir hins opinbera.

Samkvæmt athugun sem ég hef óskað eftir kemur fram að rannsóknarstofnanir á vegum hins opinbera eru hvorki fleiri né færri en 92. Í gegnum fyrirspurnir sem slitrótt svör hafa borist við á síðustu vikum er að verða ljóst að þær forsendur sem eru notaðar til fjárstuðnings við þessar stofnanir eru mjög mismunandi. Það er sömuleiðis mismunandi stjórnvald tekur ákvarðanir um þessa fjármuni. Rétt eins og ég sagði áðan skortir þarna reglufestu og faglegar forsendur. Ég tel að það væri heppilegt og æskilegt að allur stuðningur hins opinbera við atvinnulíf væri gegnsær þannig að þing og þjóð sjái hver tekur ákvörðun, um hvaða fjárhæðir, til hvaða verkefna og hvaða árangri slíkt skilar.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að hafist verði handa við heildarendurskoðun á aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu, endurskoðun sem miðast að því að hið opinbera styðji ungviðið í atvinnulífinu með faglegum, gagnsæjum og réttlátum hætti. Það er ljóst að ungviðið hreiðrar helst um sig í smáfyrirtækjum og því fagna ég áliti þessarar nefndar sem fram er komið og framgangi þessa máls á Alþingi.