Skerðing kolmunnakvóta

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:14:01 (5665)

2004-03-29 15:14:01# 130. lþ. 89.1 fundur 438#B skerðing kolmunnakvóta# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka sjútvrh. fyrir svör hans en ég á svolítið erfitt með að sjá af hverju þær veiðar eru svona voðalega óábyrgar þegar það er áfram mokveiði úr þessum mikla fiskstofni og það þrátt fyrir að farið hafi verið langt fram úr ráðgjöf fiskifræðinga á undanförnum árum.

Það er kannski miklu frekar ástæða til að spyrja hvort ekki sé eitthvað athugavert við þá veiðiráðgjöf sem hefur verið gefin út á undanförnum árum vegna þessa stofns. Þá má jafnvel spyrja þeirrar spurningar hvort kvótasetning á honum hafi ekki verið gersamlega óþörf. Þessi kvótasetning, a.m.k. á Íslandi, kom sér mjög illa fyrir margar ágætar útgerðir. Í mínu kjördæmi, Suðurk., er t.d. hlutdeild Vestmanneyinga í stofninum miklu minni en ég tel að hún ætti að vera þannig að mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh.: Væri ekki rétt að afnema íslenska kvótasetningu á kolmunna?