Jöfnun búsetuskilyrða á landinu

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:53:26 (5918)

2004-03-31 15:53:26# 130. lþ. 92.9 fundur 773. mál: #A jöfnun búsetuskilyrða á landinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði hér um það áðan að hún væri ekki feimin að ræða byggðamálin við þingmenn. En ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst full ástæða fyrir hæstv. ríkisstjórn og ráðherra byggðamála alveg sérstaklega að skammast sín svolítið fyrir það hvernig ástandið er. Fyrirséð var fyrir langa löngu að á Austfjörðum yrði mikil spenna á næstunni en á öðrum stöðum í landinu ekki. Það þurfti að bregðast við því fyrir löngu. Við samfylkingarmenn fluttum tillögu hér um ójafnvægi í byggðamálum fyrir hálfu öðru ári síðan einmitt vegna þessa. En ekki var hlustað á þá tillögu og það hefur ekki verið hlustað enn. Enn þá hafa ekki komið til neinar framkvæmdir frá ríkisstjórninni til þess að taka á því ójafnvægi sem er augsýnilega að koma upp vegna þessarar miklu spennu fyrir austan. Á öðrum landsvæðum virkar ekki sú spenna.