Íslenski þorskstofninn

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:03:49 (5924)

2004-03-31 18:03:49# 130. lþ. 92.10 fundur 630. mál: #A íslenski þorskstofninn# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Örlygsson):

Virðulegi forseti. Kvótakerfi aflaheimilda var sérstaklega tekið upp út frá verndunarsjónarmiðum fyrir íslenska þorskstofninn. Ekki hafa allir fræðimenn erlendir og innlendir verið á eitt sáttir um aðferðafræði Hafró. Sú stofnun tekur öðrum fremur ákvarðanir ásamt sjútvrh. um heildarveiði íslenskra fiskiskipa á þessum stofni. Einnig hefur verið deilt um veiðarfærastíl íslenska fiskiskipaflotans. Jafnan er talað um umhverfisvænar veiðar þegar kyrrstæð veiðarfæri eiga í hlut. Einnig er áberandi í umræðunni aukinn þrýstingur frá kaupendamarkaði afurða ytra að Íslendingar láti í ríkari mæli af togveiðum og innleiði frekari hlutdeild kyrrstæðra veiðarfæra í íslenskri lögsögu.

Um árabil hefur Hafró fyrst og fremst starfað eftir stærðfræðilegri hugmyndateoríu. Fæðuframboð, hitastig og önnur almenn líffræðileg skilyrði í hafinu virðast lítið vægi hafa í ráðgjöf og störfum stofnunarinnar. Sem dæmi, virðulegi forseti, er vaxandi vandamál með þorsk á grunnslóð. Þorskurinn er mjög sýktur af hringormi. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til þeirrar staðreyndar að fæðuframboð er mjög takmarkað.

Í fyrsta lagi hefur verið gengið mjög á loðnustofninn á hverju ári með tilliti til fæðuþarfar botnfiskstofna. Í annan stað er ljóst að hækkandi hitastig sjávar veldur því að þorskurinn, okkar mikilvægasti botnfiskstofn, heimtar meiri fæðu, hann brennir meiru. Þorskurinn leitar því meira í botnfæðu, til að mynda krabba, slöngustjörnu og botnskít, og vandamálið með hringorminn vex.

Ef ekki koma til róttækar breytingar á starfsaðferðum Hafró má leiða líkur að því að á endanum verði til dvergvaxinn stofn, úrkynjaður og langt frá því að vera í líkingu við þann nytjastofn sem við viljum öll að þorskurinn verði áfram umhverfis landið. Nú þegar er farið að bera á þessari þróun. Þorskurinn verður kynþroska langtum fyrr en áður.

Það verður að auka veiðiálagið verulega. Aukning upp á 50 þús. tonn af þorski yrði að koma mestmegnis frá strandveiðiflotanum. Til að mynda mætti fjölga veiðidögum dagróðrabáta. Ef ekkert verður að gert mun þessi slæma þróun á endanum skaða þorskstofna okkar á grunnslóð. Ég get skilið að í öndverðu hafi þróunarkenning Darwins mætt andstöðu ýmissa bókstafstrúarmanna en að sjálfur hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála á Íslandi skuli ekki sjá þá vitleysu sem viðgengst í stjórn fiskveiða er með ólíkindum og það árið 2004.

Því verður að spyrja hæstv. ráðherra Árna M. Mathiesen hvort hann hafi ekki efasemdir um aðferðir Hafró sem liggja til grundvallar þeirri ráðgjöf sem við búum við. Í annan stað spyr ég hver hafi verið vaxtarþróun íslenska þorskstofnsins frá því að kvótakerfið kom á árið 1983 og til dagsins í dag.

Í þriðja lagi spyr ég: Hefur hæstv. sjútvrh. einhver áform um að auka hlutdeild vistvænna veiða úr heildarafla íslenskra botnfiskstofna?