Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:42:59 (6406)

2004-04-15 14:42:59# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, EOK
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Hér eru tvö frv. til 1. umr. Ég ætla að byrja á að lýsa því yfir að ég er ákaflega ánægður með að menn skuli hafa stigið þetta skref. Landbúnaðarháskólarnir og stofnanir landbúnaðarins, menntastofnanir, hafa verið til umfjöllunar nokkuð lengi, í mörg ár, og nokkuð margar nefndir hafa fjallað um þá og reynt að gera tillögur um framtíðarskipan þeirra. Nefndirnar hafa gengið mislangt. Sú sem gekk lengst fyrir um 3--4 árum lagði til að allar þessar stofnanir yrðu sameinaðir undir einn hatt og gerðar að einni stofnun. Þær tillögur náðu ekki fram að ganga og var stungið niður í skúffu. Ég held að það sé eðlilegt og ekkert og skrýtið við það. Það voru of stórir bitar til að kyngja. Menn þurfa að fara varlega í slík mál og ég tel að hæstv. landbrh. hafi einmitt farið rétta leið með þessum frv. en með þeim er verið að sameina tvær stofnanir og það er aðalatriði málsins. Verið er að færa Rannsóknastofnun landbúnaðarins, RALA, undir Háskólann á Hvanneyri. Það er stóra skrefið og því ber að fagna mjög vel.

Það getur enginn háskóli þróast og orðið alvöruháskóli nema rannsóknastarfið sé þar knýtt fast við þannig að það er ástæða til að vera mjög ánægður með það. Hvernig sem framtíðarskipanin verður, og við eigum nokkrar skýrslur um það, kann vel að vera rétt að við þurfum að efla tengslin milli þessara stofnana í framtíðinni og ég held að það sé enginn vafi að við munum gera það. Ég er mjög sammála hæstv. landbrh. og ég er líka mjög sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um þá sýn sem hann hafði til þessara hluta í ræðu sinni í dag. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið þurfi að hætta að reka þessar rannsóknastofnanir öðruvísi en að tengja þær háskólunum, tengja þær háskólastarfinu í landinu.

[14:45]

Við höfum ekkert að gera með Iðntæknistofnun. Mikið af starfsemi hennar má leggja niður. En það sem við getum ekki án verið á náttúrlega að fara undir Tækniháskóla Íslands. Þannig eigum við að gera þetta.

Við höfum ekkert að gera með Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á mörgum sviðum. En á þeim sviðum sem við þurfum á henni að halda, þar sem hún vinnur grundvallarrannsóknir, þá á að sameina hana Líffræðistofnun Háskóla Íslands. Það á líka að gera hið sama við Hafrannsóknastofnun. Við eigum ekki að láta ríkið reka einstakar stofnanir sem múra sig inni í eigin hugmyndum, loka af umræðuna og vísindin. Við eigum að færa þær allar inn í háskólana og tryggja þar með frjálsa umfjöllun vísindamanna um þau verkefni sem eru okkur svo brýn.

Ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að Veiðimálastofnun væri mjög vel komin við háskólann að Hólum, mjög sammála því. Ég held að það gæti vel verið næsta skrefið sem við þurfum að stíga.

Ég hef setið í einni þeirra nefnda sem fjallað hafa um þessa skóla, sérstaklega um Hvanneyri. Ég sat þar með ágætum prófessor, Jóni Torfa Jónassyni. Niðurstaða okkar í þeirri nefnd varð t.d. sú að það ætti ekki að sameina Hvanneyrarskóla og Hólaskóla. Talið var til bóta að hafa Hólaskóla sem sjálfstæðan skóla. Það mundi efla metnað og samkeppni, skólinn væri góð stofnun sem mundi þróast og dafna best eins og hann er. Það var niðurstaða okkar. Ég er alveg ósammála hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur um að með frv. séum við að vanvirða Hólaskóla eða skólann að Reykjum í Ölfusi. Ég get ekki með nokkru móti séð það. Ég held að þær geti ekki haft nema gott af því, allar þessar stofnanir, ef okkur tekst að efla Hvanneyrarskóla og styrkja eins og ætlunin er með frv.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir gerði athugasemdir við það að með frv. væri ekki tekið á því sem augljóslega þyrfti á að taka. Ég verð að segja, herra forseti, að ég skildi ekki alveg hvað hún var að fara með því. Það er álitamál hvernig skuli reka þessar stofnanir en ég held að það sé töluverð pólitísk samstaða um að við viljum efla þessar stofnanir. Við gerum okkur öll grein fyrir því, hvar í flokki sem við stöndum, að það er Íslandi, íslenskum landbúnaði og íslensku atvinnulífi, ákaflega mikilvægt að efla þær til að verða styrkari stoðir í framtíðinni, bæði fyrir menntun og fyrir landbúnaðinn sem heild.

Ég fagna þessum frv. Ég vil styðja það og styrkja og tel að þetta skref að sameina RALA og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri sé fyrsta skrefið. Ég tel að hæstv. landbrh. hafi með því sýnt fyrirmynd sem aðrir ráðherrar ættu að hugleiða og stíga slík skref með stofnanir sínar sem hæstv. landbrh. hefur gert með RALA, sameina rannsóknastofnanir háskólastarfinu í landinu.