Starfsskilyrði loðdýraræktar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:43:58 (6857)

2004-04-27 15:43:58# 130. lþ. 104.7 fundur 763. mál: #A starfsskilyrði loðdýraræktar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hinn 4. september 2003 skipaði ég nefnd sem falið var það hlutverk að leita lausna á bráðum rekstrarvanda sem að loðdýraræktinni steðjaði. Jafnframt var nefndinni falið að huga að mögulegum leiðum til að jafna samkeppnisstöðu greinarinnar gagnvart framleiðendum í öðrum löndum og á annan hátt að auka rekstraröryggi í greininni til langs tíma. Nefndin skilaði áliti, eins og fram kom í ræðu hv. þm., í október 2003. Á grundvelli þess voru tryggðar 15 millj. kr. í viðbótarframlag til greinarinnar á fjáraukalögum 2003, eins og hv. þingmenn minnast. Það framlag kom ofan á þann stuðning sem veittur var á síðasta ári. Sá samningur átti að gilda út síðasta ár samkvæmt því sem samið var um fyrir fimm árum varðandi opinberan stuðning, ef ég man þetta rétt.

Nefndin hefur síðan unnið að gerð tillagna sem miða að því að treysta rekstrargrundvöll greinarinnar til frambúðar. Í áliti nefndarinnar kemur fram að á síðustu árum hafi þróun greinarinnar um margt verið hagstæð. Frjósemi dýranna hefur aukist, stærð skinnanna vaxið og gæði felda batnað. Segja má að íslenskir loðdýrabændur hafi verið í miklum sóknarhug og náð miklum árangri í ræktunarbúskap sínum. Því er rétt að áætla að á tiltölulega fáum árum geti loðdýrabúskapur á Íslandi náð því lokamarkmiði að verða sjálfstæð útflutningsgrein í harðri alþjóðlegri samkeppni, eins og hún vissulega stefnir að.

[15:45]

Það sem að mati nefndarinnar stendur loðdýraræktinni fyrst og fremst fyrir þrifum hér er verð á fóðri. Fóðurverð í helstu samkeppnislöndum er um 17 kr. á kíló, eða 32--34% af reiknuðu meðalverði skinna. Hér á landi er fóðurverðið hins vegar að jafnaði 24,50 kr. á kíló heimkomið til bónda, eða 52--55%. Munurinn er sá að fóðurverðið hér er 52--55% en í samkeppnislöndum 32--34% af reiknuðu meðalverði skinnanna. Þarna skilur að þrátt fyrir að hráefnisverð til fóðurframleiðslu sé mun lægra hér en í nágrannalöndum. Við búum í stóru landi og búin eru dreifð, við eigum eitthvert besta hráefni sem til er og það er ódýrara en samt stöndum við í þessum vandasömu sporum hvað þetta varðar.

Nefndin telur því að áhrifaríkasta leiðin til þess að efla samkeppnisstöðu greinarinnar sé að endurskipuleggja fóðurframleiðsluna þannig að verð á loðdýrafóðri verði sambærilegt við það sem gerist í samkeppnislöndum. Nefndin vinnur nú að gerð tillagna um það hvernig framangreindu markmiði verði náð. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum í lok apríl og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hvort grundvöllur er fyrir gerð aðlögunarsamnings við Bændasamtökin um starfsskilyrði greinarinnar. Ég hef eðlilega rætt það í ríkisstjórninni að sú vinna sé í gangi hvað sem svo kann að gerast.

Eitt er ljóst að enda þótt skinnaverð á heimsmarkaði sé hagstætt er dollarinn samt mjög óhagstæður greininni, þ.e. þróun hans. Loðdýraskinn eru í rauninni seld í dollurum um allan heim. Það hefur meiri áhrif. Ef dollarinn væri eins og hann var í fyrra eða hittiðfyrra væri enginn vandi hjá þessari grein í dag, þá væru tekjurnar miklar.

Hvað varðar aðra spurningu hv. þm. um aukna nýtingu sláturúrgangs í loðdýrafóður þá er það eitt af þeim atriðum sem ég hef nefnt, að nefndin hefur verið að fara yfir það og skoða enn betur.

Hvað þriðju spurninguna varðar er ljóst að flutningskostnaður er mjög íþyngjandi fyrir greinina eins og ég hef sagt. Brýnt er að skoða að hve miklu leyti hægt er að lækka þann kostnaðarlið með bættu skipulagi flutninga á fóðri og hráefni í fóður og með endurskipulagningu og hagræðingu hjá fóðurstöðvunum. Þau mál eru nú til umfjöllunar í þessari ágætu nefnd. Í henni sitja eðlilega loðdýrabændurnir sjálfir og ráðunautur þeirra og síðan menn úr landbrn. þannig þetta er allt í farsælu samstarfi og málin eru í fullri vinnslu og, í sátt ég veit ekki betur. Ég hitti þessa menn á dögunum og við ræddum þessi mál.