Starfsskilyrði loðdýraræktar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:52:51 (6861)

2004-04-27 15:52:51# 130. lþ. 104.7 fundur 763. mál: #A starfsskilyrði loðdýraræktar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin og hv. þm. fyrir innlegg þeirra í umræðuna. Ég ítreka enn og aftur að loðdýraræktin er nánast alfarið byggð á innlendum framleiðsluþáttum, launum og fóðri og þekkingu. Þannig að útflutningsverðmætið sem skapast er má heita nettó gagnvart þeim viðskiptum. Þessi búgrein getur líka nýtt til fóðurs og breytt í dýrmæta útflutningsvöru úrgang úr sláturhúsum, t.d. fuglasláturhúsum eins og hérna hefur verið nefnt og þau hafa einmitt sóst eftir, en erlendis tíðkast að það sé niðurgreitt eða þá að förgunarkostnaðurinn komi líka til móts við það þannig að þeir sem framleiða fóður úr þeim úrgangi fá hluta af þeim förgunarkostnaði sem annars verður að greiða. Það er mjög sanngjarnt að það sé einnig tekið upp hér.

Þá vil ég og benda á að hér eru erlendir aðilar, mig minnir að það séu danskir aðilar, sem safna saman fiskúrgangi til þess að flytja til Danmerkur og nota í loðdýrafóður þar. Loðdýraræktin hér á landi á því í samkeppni við Dani um fiskúrgang þannig að héðan er fluttur út íslenskur fiskúrgangur til loðdýrafóðurs. Það er því alveg ljóst að skekkjur eru í samkeppnisstöðu íslenskra loðdýraræktenda gagnvart nágrannalöndum okkar þar sem opinberir aðilar virðast koma að með beinum hætti og mikilvægt að við látum ekki framleiðendur okkar gjalda þeirrar stöðu, heldur sköpum þeim hliðstæð skilyrði.

Ég legg áherslu á að nefnd hæstv. ráðherra skili sem allra fyrst störfum, þannig að ráðherra geti gripið (Forseti hringir.) til þeirra úrræða sem hann mögulega getur og ég vænti fastlega að hugur hans standi verulega til.