2004-05-27 00:55:31# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[24:55]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fullyrti að mikill meiri hluti svokallaðra trillukarla sem eiga daga\-trillur væri fylgjandi því að fara í kvóta. Þetta er alfarið rangt. Þar hefur hv. þm. annaðhvort misskilið eitthvað hrapallega eða fengið rangar upplýsingar hjá flokksfélögum sínum.

Málið er nefnilega að umsagnir sem sjútvn. hafa borist frá öllum aðildarfélögum trillukarla allt í kringum landið eru samróma um að þeir vilji verja dagakerfið. Hins vegar brást samstaðan á síðustu metrunum, forusta Landssambands smábátasjómanna missti kjarkinn. Menn létu undan. Ég trúi því ekki að óreyndu að hv. þm. fari hér vísvitandi með rangt mál og ég hvet hann til að kynna sér þetta mál betur.

Hv. þm. sagði í ræðu sinni, sem var ágæt að mörgu leyti, að hann tryði því að við værum á rangri leið. Það hryggir mig að verða vitni að því að trú hans skuli ekki vera það sterk að hann geri eitthvað í málunum. Af hverju reynir hann þá ekki að færa hlutina til betri vegar í stað þess að lyppast niður eins og margir stjórnarþingmenn hafa gert, sem ég veit að í hjarta sínu vita að við erum á rangri leið. Þeir vita hvaða aðferðir við eigum að velja til að komast inn á rétta braut.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því yfir skýrt og skorinort á fjölmennum fundi á Ísafirði fyrir aðeins átta mánuðum að hann styddi eindregið 23 daga gólf fyrir smábátana. Það var enginn vafi í hans huga um það þá. Ég á hljóðupptöku af þessu. Þar var enginn vafi og hann talaði mjög ákveðið. Síðan hefur hann gefist upp, lyppast niður eins og fleiri þingmenn stjórnarliða í Norðvesturkjördæmi. Það er hinn stóri harmleikur í þessu máli.