2004-05-27 05:01:52# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[29:01]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að gera tilraun í þriðja, fjórða eða fimmta skipti í kvöld um sama hlutinn. Það er þannig að ungur sjómaður sem ætlar inn í smábátakerfið sér leið með því að kaupa dagabátaleyfi. Þetta leyfi hefur verið á u.þ.b. 35 millj. Það hefur margoft komið fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar að verið sé að gera nýliðun auðveldari, það sé verið að opna fyrir nýliðun. Það er deginum ljósara að ef þetta fer inn í aflamarkskerfi mun 80 tonna afli sem sá hinn sami hyggst veiða í dagakerfinu kosta viðkomandi 65--70 millj. Ég trúi því einfaldlega ekki, herra forseti, að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sjái þetta ekki. Fer ég með ósannindi hér? Ég spyr hv. þm. Guðjón Hjörleifsson enn og aftur.