2004-05-27 05:08:37# 130. lþ. 127.22 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 130. lþ.

[29:08]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég beindi spurningum til hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar og fékk rýr svör. Hann greindi okkur frá því að litið hefði verið á hagsmuni hinna 300 eigenda þessara smábáta og sjónarmið þeirra. Það hefur komið fram að þeir eru að fá 8 milljarða sem skiptast einhvern veginn á milli þeirra. En það kom ekki fram hjá hv. þm. hvort litið væri á þjóðarhag, sérstaklega í ljósi þess að það er staðreynd og það kom m.a. fram í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, ef ég man rétt, að það væri ákveðinn hvati til brottkasts í þessu kerfi og hann væri minni í því sem við værum að afleggja, hvort ekki ætti einmitt að líta til þessara hluta í ríkari mæli og hvort það hefði verið gert. Það kom ekki fram og ég vil fá svör við því og óska eftir því hvort hann geti upplýst okkur um hvernig það hefði verið gert.

Önnur spurning sem ég beindi til hans í fyrri ræðu minni var hvort hann hefði orðið var við hina miklu baráttu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar innan Sjálfstfl. fyrir sóknardagakerfi eða sóknarkerfi. Ef hann hefur orðið var við þá miklu baráttu, vegna þess að hann hefur öll rök sín megin í málinu, alla vega ætti það að blasa við m.a. vegna þess að aðrar þjóðir svo sem Bretar sem eru að skoða sín mál, eru að hugsa um að taka upp sóknarkerfi í blönduðum botnfiskveiðum, hvers vegna hefur ekki verið hlustað á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson innan Sjálfstfl.? Ég tel það vera mjög áhugavert hvað það er sem veldur því að menn vilja ekki skoða þann hlut.

Loks í þriðja lagi varðandi skoðanakönnunina. Hún er náttúrlega hrein og klár vitleysa. Menn eiga bara að viðurkenna það og biðjast afsökunar á því að nota hana sem einhver rök. Það eru hvorki hlutlausir aðilar sem gerðu könnunina né er það svo að þetta séu raunverulegir valkostir. Það voru afarkostir sem umræddir eigendur smábáta stóðu frammi fyrir.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira en mér þætti vænt um ef hv. þm. svaraði spurningunum varðandi þjóðarhag og brottkastið sem sannarlega verður meiri hvati að í kvótakerfi en í sóknarkerfi. Og síðan hvort hann hafi orðið var við baráttu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og hvort hún hafi verið jafnátakamikil og hann lýsti hér og hvers vegna ekki sé þá hlustað á hann.