Sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 18:08:13 (2191)

2003-11-26 18:08:13# 130. lþ. 35.6 fundur 315. mál: #A sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., ÁI
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Það er varla hægt annað en að koma í ræðustól og lýsa undrun á því að 700 millj. kr. afsláttur skuli hafa verið veittur á sölu Landsbankans þrátt fyrir að upplýst sé að bankinn hafi hagnast um nær því helming af kaupverðinu á þessu ári, eftir skatta og eftir afskriftir. Ég held að viðskiptavinir bankans séu fyrir löngu búnir að greiða upp töpin og það er nöturlegt að horfa upp á það hvernig þetta mál hefur allt saman æxlast.

Það var haft á orði að það hefði verið í fyrsta sinn það árið, á gamlársdag í fyrra, sem hæstv. viðskrh. brosti og það var þegar gengið var frá bankasölunni. Ég held að það bros sé nú löngu stirðnað, a.m.k. hjá þjóðinni.