Sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 18:13:00 (2194)

2003-11-26 18:13:00# 130. lþ. 35.6 fundur 315. mál: #A sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er annaðhvort einhver mikill misskilningur hér á ferðinni eða þá að hv. þm. eru í pólitískum leik. Það er ljóst að einhvern tíma þurfa að vera þau skil þegar bankarnir eru seldir. (Gripið fram í.) Eins og allir vita var hins vegar ekki samkomulag á milli seljanda og kaupanda hvað varðaði verðmæti bankans þegar hann var seldur, þegar undirritað var. Það var gerður listi með níu fyrirtækjum. Alls voru það 700 millj. sem ákveðið var að taka út fyrir sviga og síðan voru báðir aðilar sammála um hvernig farið skyldi með málið og að tvö endurskoðunarfyrirtæki ættu síðan á ákveðnum degi að endurmeta stöðu þessara eigna Landsbankans. (Gripið fram í.)

Niðurstaðan varð sú að þeir urðu sammála um að bankinn hefði ekki verið eins mikils virði og álitið var og eins og haldið var fram af eiganda á þessum söludegi. Að sjálfsögðu vill seljandi ekki selja svikna vöru og það er því ekkert launungarmál að þessar 700 millj. eru frá, verðið lækkar um þessa upphæð. Þetta er allt saman uppi á borðinu. (Gripið fram í.) Ég hef sagt það hér úr þessum ræðustóli og segi það enn að þetta voru góð viðskipti, þetta var vel heppnað bæði hvað varðar hlutafélagavæðingu bankanna og eins hvað varðar einkavæðingu. Fyrirtækin hafa hækkað mikið núna að verðmæti eins og önnur fyrirtæki á Íslandi sem skráð eru á markaði og ástæðan er sú að það ríkir bjartsýni á Íslandi vegna þess að ríkisstjórn heldur vel á málum og þá hefur það þær afleiðingar að þau fyrirtæki sem skráð eru á markaði hafa hækkað að verðgildi.