Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 14. febrúar 2005, kl. 18:41:49 (4547)


131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á stærstan hluta ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals og þá röksemdafærslu sem hann setti fram fyrir þeirri hugmynd sinni að leggja niður embætti forseta Íslands. Reyndar kemur fram í frumvarpinu sjálfu að hugmyndin sé ekki sú að þetta mál fái framgang á þessu þingi heldur verði rætt á nýju þingi og tekið fyrir fyrir næstu kosningar þannig að hugmyndafræðin er þá væntanlega sú að setja fram þessa hugmynd til að skapa umræðu um forsetaembættið á fyrra þinginu og ná því í gegn á seinna þinginu.

Ég ætla því í minni stuttu ræðu, þar sem ég ætla að ræða örlítið um þetta, að fjalla aðeins um það að eftir að hafa lesið greinargerðina sem fylgir frumvarpinu og hlustað á ræðu hv. þingmanns, reyndar í tvígang, þá verð ég að segja alveg eins og er að það er afar erfitt að byggja nokkra umræðu um forsetaembættið á þeim rökum sem hér hafa verið sett fram.

Í fyrsta lagi segir lítið sem ekkert um það í greinargerðinni hvers vegna leggja ætti þetta embætti niður. Það segir lítið sem ekkert um það en er vísað í einhver popúlísk almenn viðhorf þess efnis, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„... embætti forseta felur helst í sér móttökur fyrir erlenda þjóðhöfðingja og erindreka og önnur veisluhöld sem forseti efnir til og tekur þátt í.“

Þetta eru svona hefðbundin popúlísk viðhorf sem hent er fram án neinna meininga og eiginlega átta ég mig ekki á því í hvaða tilgangi þetta er gert, því að í hinu orðinu er einhver tilgangur og vísað til þess að forsetinn hafi slík völd að þjóðinni stafi ógn af því. Hann geti neitað að skrifa undir lög, hann geti rofið þing þegar honum detti í hug o.s.frv. Það rekur sig því hvað á annars horn í málflutningi hv. þingmanns. Þess vegna er öll röksemdafærsla sem hann setur fram það veik að það er ekki nokkur leið að hefja neina vitiborna umræðu um það hvort embætti forseta á að lifa eða deyja.

Hv. þingmaður fjallaði hér í framsöguræðu sinni almennt um mannréttindi og greindi þau á sinn hátt og get ég ekki haft það eftir hér. En hann lagði gríðarlega áherslu á það að stjórnarskráin væri, ef ég má túlka það á minn hátt, illa skrifuð á þann hátt að erfitt væri að skilja hana. Af orðum hans mátti að ráða að hér hafi verið stórstyrjaldir í eina sex áratugi eða svo og hér hafi allt verið upp í loft. Hér sé slík ógn sem við stöndum frammi fyrir sökum þess að stjórnarskráin er ekki rituð á þann hátt, eins og hv. þingmaður orðaði það sjálfur, að fólk með greindarvísitölu undir 90 geti ekki skilið hana skammlaust og prófið sem hv. þingmaður setti fram sem stjórnarskrá ætti að standast er það að fólk með greindarvísitölu undir 90 ætti að skilja hana. Ég frábið mér svona málflutning, hvað þá trú manna á að tilbúin próf segi til um það á einhvern skilmerkilegan hátt hvað fólk getur skilið og hvað ekki. Þetta sé einhvers konar imbapróf og væntanlega ætlar hv. þingmaður að boða til þess prófs og kannski manntals þegar þar að kemur. Mér finnst, virðulegi forseti, svona orðræða vera þess eðlis að hún eigi ekki að hljóma á hinu háa Alþingi.

Á sama hátt, virðulegi forseti, verður það aldrei svo, sama hvaða lög verða sett eða hugmyndir færðar í orð, að ekki megi túlka það á einhvern hátt þannig að menn geti verið ósammála um niðurstöðuna. Lífið verður aldrei fært í eitt óskeikult regluverk. Það verður aldrei svo. Í einhverju bókmenntaverki segir, gott ef Pétur Gautur er ekki látinn segja það: „Komdu með lögmálið. Láttu það dæma.“ En menn segja líka að svo einfalt verði lífið aldrei að hægt verði að færa hugmyndir í orð þannig að engin geti misskilið það, þ.e. ekki misskilið það heldur skilið það hver á sinn hátt. Þannig er málið einfaldlega vaxið. Draumsýn hv. þingmanns byggir á því að hægt sé að semja stjórnarskrá, þ.e. grundvallarskrána um stjórnskipun þjóðarinnar, sem verði það einföld að aldrei kunni að koma upp deilur. Það er fásinna. Það er alger fásinna og það verður aldrei gert með því að eitthvert fólk sem hv. þingmaður telur undir meðalgreind — eða hvað? — ef það er undir greindarvísitölunni 90, geti lesið hana og fái tiltekinn skilning á málinu. Mér finnst þetta svo fráleitt, virðulegi forseti, að mér þykir miður að svona hugmyndir séu settar fram á hinu háa Alþingi.

Veruleikinn er sá að við höfum búið við þessa stjórnarskrá, þann grunn, í mjög langan tíma. Henni hefur verið breytt og við höfum komist ágætlega af (Gripið fram í.) og embætti forseta Íslands hefur ekki verið sú ógn sem mátti skilja af ræðu hv. þingmanns. Hvað gerir það að verkum að svo mikil nauðsyn er á því nú að leggja embættið niður? Hvers vegna ekki í fyrra og hvers vegna ekki í hittiðfyrra því það er sama stjórnarskráin sem við búum við. Er það vegna þess veruleika að það ákvæði var nýtt sem heimilar forseta að vísa tiltekinni löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt til þjóðarinnar? Það er ekki svo að löggjöfin sé úr gildi felld. Hún fær gildi. En það er þjóðin sem fær endanlega um málið að segja. Er svona stórkostlega hættulegt að í okkar kerfi sé embættismaður kosinn beint af þjóðinni sem hefur umboð til að vísa málum til hennar? Hvað er svona stórkostlega hættulegt við það? Þennan þátt skildi ég t.d. aldrei í umræðunni. Menn leyfðu sér jafnvel á köflum að tala um allt að því valdarán og brot gegn þingræðinu og ég veit ekki hvað og hvað.

Við hv. þingmenn megum aldrei gleyma því að við fáum umboð okkar frá þjóðinni. Það umboð verður aldrei stærra og meira. Við getum vísað málum aftur til þjóðarinnar. Þjóðin er uppspretta valdsins. Þaðan kemur valdið. Þjóðin kýs ekki þing og segir svo: Nú koma málin okkur ekki við í fjögur ár eða svo eða hve langur sá tími verður þangað til næst verður kosið. Þannig er það ekki. Uppsprettan er ætíð sú hin sama og það er afar eðlilegt að vísa málum til þjóðar telji menn tilefni til þess.

Ég ætla ekki í þessari ræðu að fjalla um þær ástæður sem herra forseti Íslands bar fyrir sig þegar hann tók þessa ákvörðun. En það að þetta sé möguleiki er ekki næg ástæða til að leggja embætti forseta Íslands niður.

Við skulum heldur ekki gera lítið úr þeirri þróun sem átt hefur sér stað hvað varðar embætti forseta Íslands. Hann hefur tekið að sér það hlutverk að vera í forsvari fyrir stórum viðskiptanefndum sem hafa jafnvel komið á samskiptum og viðskiptum við önnur ríki sem skipta miklu máli. Ég hef ekki í handraðanum dæmi um hve mikið þjóðin hefur hagnast á þeim viðskiptasamböndum. Kannski er það lítið. Kannski er það mikið. Ég veit það einfaldlega ekki. En það hefur orðið eitt af hlutverkum forseta Íslands að vera í forsvari fyrir þjóðina á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur m.a. haft það hlutverk að efla, treysta og skapa viðskiptasambönd við aðrar þjóðir.

Á sama hátt felur stjórnarskráin forseta Íslands talsverð völd. Tilvist forseta Íslands hefur skipt miklu máli til að mynda við stjórnarmyndunarviðræður. Nú er eftir því sem ég best veit verið að skrifa sérstaka sögu um stjórnarmyndunarviðræðurnar 1978 og 1979 og ég þori að fullyrða að forseti Íslands gegndi lykilhlutverki þar og þá skipti miklu máli að hann var til staðar. Ég hugsa með mér: Hver hefði staðan verið ef forseti sameinaðs þings sem þá var og hét, nú forseti Alþingis, pólitískt kjörinn af einhverjum flokkum, hefði þá farið með þetta vald? Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni: „Héðan í frá verða allir forsetar pólitískt kjörnir.“ Það var ein af röksemdafærslunum eftir þessa uppákomu eða þessa ákvörðun forsetans í sumar, þ.e. ein af röksemdafærslunum var sú að héðan í frá yrðu allar forsetakosningar pólitískar. Ég hugsa að það megi segja og fullyrða að frá upphafi þær á einn eða annan hátt verið pólitískar. En hafi menn áhyggjur af því, er þá rétta leiðin að færa þetta í hendur forseta Alþingis? Þá fyrst yrði það pólitískt. Þá yrði að flokkspólitískt.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi er afar erfitt að byggja vitiborna umræðu um það sem lagt er til í þessu frumvarpi um embætti forseta Íslands, tilvist þess og hvort það eigi að lifa eða deyja, á þeim grunni sem hér er lagt upp með. Það er vandinn við þessa umræðu og svo það að hv. þingmaður leyfði sér í þessari umræðu að kalla til einhvers konar dómara um það hvort stjórnarskrá, sem síðar meir kann að verða til, sé í lagi eða ekki, þ.e. að það verði hlutverk fólks sem í einhvers konar mælingum hafi ekki náð nema „að mælast með vísitölu greindar upp á 90 stig eða svo.“

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta mál er eitthvert popúlískasta mál sem hefur komið inn á þingið og hefur ekki haft neinn tilgang annan en að vekja athygli á flutningsmanni sjálfum. Það er einasta hlutverk þessa máls, enda segir í greinargerðinni sjálfri, í upphafi hennar, að ekki sé ætlast til þess að þetta verði að lögum.