Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2005, kl. 16:17:57 (4617)


131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:17]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skólar, bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi, hafa um nokkuð langt skeið verið reknir á Íslandi í formi sjálfseignarstofnana. Það form hefur almennt gefist mjög vel. Þar sem ég er mikill raunhyggjumaður og byggi á þeirri reynslu sem upp hefur safnast og fyrir er þá tel ég að reynslan tali sínu máli. Slíkt rekstrarform hefur einfaldlega reynst skólastofnunum vel. Það hefur ítrekað komið fram í orðum rektora þeirra skóla, sérstaklega rektors Viðskiptaháskólans á Bifröst. Rektorar ríkisreknu háskólanna, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og að ég held Háskólans á Akureyri, hafa allir mælt með því að til framtíðar verði skoðað að ríkisreknu háskólarnir verði sjálfseignarstofnanir. Skólasamfélagið allt styður eindregið og mælir með því að háskólar séu reknir sem sjálfseignarstofnanir. Þeir telja að það sé betra form en bæði ríkisreksturinn og einkahlutafélagsformið og ég er sannfærður um að svo sé.

Einkahlutafélagsformið er byggt upp í kringum rekstur í hagnaðarskyni. Sjálfseignarstofnunarformið er búið til og byggt í kringum rekstur sem er ekki í hagnaðarskyni, „non-profit“, eins og þar stendur. Mikil reynsla er komin á slíkt rekstrarform um allan heim en það er nánast fordæmalaust í víðri veröld að reka háskóla sem einkahlutafélög. Það hafa engin dæmi um það verið dregin inn í umræðuna hvað varðar háskólana og engin rök eða reynsla sem styðja slíkt fyrirkomulag. Hins vegar er margt sem gerir það neikvætt og tortryggilegt. Að mínu mati mæla engin rök með því fram yfir sjálfseignarstofnunarformið þótt að sjálfsögðu hafi komið fram rök, bæði hjá Guðfinnu Bjarnadóttur og fleirum, fyrir forminu. Það eru bara sterkari rök fyrir því að háskólar séu reknir sem sjálfseignarstofnanir.