Tafir á vegaframkvæmdum

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 17:20:46 (7716)


131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Tafir á vegaframkvæmdum.

736. mál
[17:20]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún er athygliverð og mjög gagnlegt er, held ég, fyrir hv. þingmenn að gera sér grein fyrir einmitt þeim staðreyndum sem blasa við þegar fyrirspurninni er svarað.

Hv. þingmaður spyr:

„Eru dæmi um að vegaframkvæmdir hafi dregist fram yfir áramót vegna þess að undirbúningi framkvæmda hefur ekki verið lokið í tæka tíð? Ef svarið er jákvætt, hvaða helstu framkvæmdir er um að ræða og hvað tefur helst fyrir í undirbúningsvinnunni?“

Öðru hvoru kemur fyrir að ekki tekst að hefja framkvæmdir við verk á þeim tíma sem áætlað hefur verið. Ástæður þess geta verið margþættar en nefna má samninga við hagsmunaaðila, umfangsmikið umhverfismat, deilur út af mati á umhverfismálum og kærur út af því, auk þess sem í sumum tilfellum reynist verkhönnun framkvæmda tímafrekari en áætlað hefur verið þegar öllu undirbúningsferli, umhverfismatsferlinu, er lokið.

Sem dæmi um framkvæmdir sem hér um ræðir, framkvæmdir sem dregist hafa, má nefna Gjábakkaveg þar sem kæruferli hefur verið býsna langt, sem og úrskurðarferli, vegna þess að þær framkvæmdir sem eru nærri Þingvallaþjóðgarðinum hafa verið að mati margra þess efnis að margar kærur hafa komið sem hafa þannig tafið framkvæmdir. Þess vegna hafa fjárveitingar ekki nýst, heldur setið eftir sem geymdar fjárveitingar.

Sama er með Suðurstrandarveginn, hann fór ekki af stað af sömu ástæðum. Reykjanesbraut um Garðabæ, þar er um það að ræða að ekki liggur enn þá fyrir að hægt sé að fara af stað með þær framkvæmdir vegna deilna um legu vegarins. Þá má nefna Dettifossveg og hringveg um Norðurárdal í Skagafirði þar sem deilur hafa staðið yfir við landeigendur og sveitarstjórn um legu þess vegar. Þar er um að ræða part af hringvegi þar sem eru fjórar einbreiðar brýr sem á að leggja af með því að þar komi nýr vegur.

Þetta eru þær framkvæmdir sem ég vil nefna alveg sérstaklega sem hafa tafist af þessum tilgreindu ástæðum. Þess vegna hafa fjármunir sem hafa verið til staðar ekki nýst og eru þær fjárveitingar þá færðar á milli ára.

Það er náttúrlega nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að samgönguáætlun og vegakafli þeirrar áætlunar er afar mikilvæg áætlunargerð. Í mörgum tilvikum, langflestum, er það þannig að vegaframkvæmdir ná yfir mörg missiri og mörg ár og þess vegna þarf að gera glöggar áætlanir um kostnað og allan undirbúning og afla fjármuna til framkvæmdanna. Þá er oft og tíðum reynt að færa á milli ára ef það þykir henta framkvæmdaframvindunni. Þegar framkvæmdir síðan komast af stað, og ekki síst þegar um það er að ræða að framkvæmdir hafi tafist og fjárveitingar safnast upp, er e.t.v. í mörgum tilvikum hægt að bjóða verk út með þeim hætti að verktíminn verði enn styttri en áður hafði verið áætlað. Í mörgum tilvikum tekst það en síðan er það þó þannig að verk geta verið það umfangsmikil að verktímann er ekki hægt að stytta þrátt fyrir að fjármunir séu til reiðu til framkvæmdanna.

Það eru margar hliðar á þessu en ég held að það sé afar gagnlegt fyrir hv. þingmenn að fá þessa mynd upp á borðið sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir hefur spurst fyrir um. Ég held að það sé gagnlegt fyrir okkur að velta þessu fyrir okkur og spyrja kannski spurningarinnar: Erum við að ganga of langt í vinnuferlinu í umhverfismati? Ég tel það varla en kæruferlið hins vegar er afar erfitt.