Þriðja kynslóð farsíma

Þriðjudaginn 19. október 2004, kl. 15:33:18 (630)


131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:33]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur farið ágætlega yfir málið og mál sem því tengjast og hafa oft borið á góma hjá okkur þingmönnum Samfylkingarinnar í umræðum um fjarskiptamál. Frumvarpið sem við ræðum, þ.e. um þriðju kynslóð farsíma, blandast inn í það sem hv. þm. gerði að umræðuefni og var líka gert að umræðuefni við hæstv. samgönguráðherra í stuttum andsvörum áðan, að mjög margir íbúar lítilla sveitarfélaga á landsbyggðinni hafa verið skildir eftir í mónó, sem hæstv. ráðherra telur þó ekki vera slæmt, á meðan aðrir hafa fengið steríó. (Gripið fram í.) Það er álíka og ráðherrabíll hæstv. samgönguráðherra væri gamall Trabant (Gripið fram í: Nei, nei.) á meðan forsætisráðherra keyrði um á rándýrum Benz.

Ég hygg að hæstv. samgönguráðherra yrði ekki ánægður ef ráðherrabíll hans væri Trabant. (Gripið fram í: Trabantinn er ágætur.) Trabantinn var ágætisbíll og hafði það sér til ágætis að ef keyrt var á hliðina á honum sprakk hann stundum til baka. (Gripið fram í: Hvaða árásir eru þetta á Trabantinn?) Þetta eru ekki árásir á þann ágæta bíl heldur samlíking um þá íbúa sem hafa ekki fengið að njóta háhraðatenginga eins og ADSL-tenginga. Framsóknarflokkurinn ætlar að reyna að slíta sig aðeins frá og koma með það fram við sölu Símans að fyrst verði gengið í að öll minni sveitarfélög landsins fái ADSL-þjónustu og ber að fagna því, en það hefði verið æskilegt að framsóknarmenn hefðu reynt að gera það fyrr svo þetta hefði ekki þurft að fara eins og það hefur gert.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, er ég mjög ósáttur við að fjölmargir íbúar landsbyggðarinnar hafi þurft að sitja eftir. Ég tel það ólíðandi mismunun og tel t.d. að börn og unglingar sitji ekki við sama borð við að stunda nám, vegna þess að margt fer fram í gegnum háhraðatengingar og netið. Íbúar þessara staða sitja ekki við sama borð við að sækja framhaldsnám sem er mjög vinsælt og mikið stundað. Þess vegna er það gert að umræðuefni hér, vegna þess að það kemur ekki til fyrr en eftir fimm, sjö eða tíu ár að við förum að tala um það hvers vegna ákveðin byggðarlög hafa ekki aðgang að þriðju kynslóð farsíma. Ég held að það sé töluvert langt í þetta þrátt fyrir allt.

Ég hef áður sagt og tekið sem dæmi að mér finnst ólíðandi að íbúar lítils byggðarlags, Hríseyjarhrepps, sem telur um 180 manns, hafi þurft fyrir eigin reikning að koma sér upp öllum stofnbúnaði við háhraðatengingu. Þessu er hæstv. samgönguráðherra ekki sammála. Þess vegna er mjög alvarlegt mál að Síminn, þetta mikla og öfluga ríkisfyrirtæki sem græðir á tá og fingri, skuli ekki hafa beitt t.d. þeirri tækni að bjóða upp á þetta í gegnum gervihnattasamband í stað þess að leggja ljósleiðara sem getur verið dýrt. Það er eins og Síminn hafi setið algjörlega eftir. Það má eiginlega segja sem svo, svo við höldum okkur áfram við Trabant-líkinguna, að Síminn hafi hálfpartinn setið eftir í Trabant meðan önnur fjarskiptafyrirtæki, minni og ekki eins fjárhagslega sterk, buðu upp á aðrar lausnir. En mér finnst algjörlega ólíðandi að íbúar litlu byggðarlaganna þurfi að borga allan stofnkostnað, sem getur verið 2–4 millj. kr. Því er eðlilegt að það sé gert að umtalsefni við 1. umr. um þriðju kynslóð farsíma, vegna þess að hér eru menn þó að setja inn ákveðna varnagla, ákveðna prósentutölu skipt eftir landsvæðum. Það ber að fagna því, hvort sem prósentutalan er rétt eða röng og ætla ég ekki að tjá mig um það hér og nú.

Virðulegi forseti. Þetta er í raun tímamótafrumvarp í sögu fjarskipta, vegna þess að í fyrsta skipti er lagt til að úthluta leyfum, þessari auðlind, og taka fyrir það gjald, nokkurs konar auðlindagjald. Það hefur ekki verið greitt til ríkisvaldsins fyrir útvarp, sjónvarp og GSM-tíðni, svo þetta er dálítið tímamótafrumvarp hvað það varðar.

Fyrir nokkrum árum hefði þriðja kynslóð farsíma verið kölluð bylting þó menn noti ekki það orð í dag, en hún er náttúrlega mjög góð og það sem koma skal. Auðvitað reiknar maður með því að þegar þessu hefur verið úthlutað og símafyrirtæki fara af stað með þetta verðum við Íslendingar fljótir að tileinka okkur þá tækni og sláum ábyggilega í því heimsmet fyrr en varir í fjölda þriðju kynslóða farsíma á hvern íbúa, eins og í ýmsum öðrum málum.

Þriðja kynslóð farsíma hefur margt fram yfir GSM, sérstaklega hraðann. Hún hefur hins vegar þann ókost að sendarnir fyrir þriðju kynslóð farsíma draga styttri vegalengdir, því þarf fleiri senda og er meiri kostnaður sem því fylgir. Þetta segi ég því enn þá hefur okkur ekki tekist að gera meginleiðir í þjóðvegakerfinu GSM-tengdar, ef svo má að orði komast. Það vantar enn þá mikið upp á og stór hluti af þjóðvegakerfi landsins er utan GSM-sambands, sem er mjög slæmt. Einnig segi ég þetta með tilliti til þess sem ég spurði um áðan og hæstv. samgönguráðherra svaraði ágætlega, um samkomulag á milli samgönguráðuneytis og Símans, um NMT-kerfið, fyrstu kynslóð farsíma.

Ég óttast hins vegar, virðulegi forseti, og á kannski eftir að kynna mér það betur, að NMT-kerfið sé að líða undir lok, jafnvel á næsta ári. Ekki vegna þess að um samningsrof sé að ræða hjá Landssímanum gagnvart samgönguráðuneytinu, sem ég vona að verði fylgt eftir út í ystu æsar ef hægt er, heldur vegna þess að varahlutir og annað slíkt fáist hreinlega ekki í NMT-kerfið og svo gott sem hætt að framleiða það sem þarf til að halda því kerfi gangandi. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál, t.d. vegna þess að bátaflotinn notast mikið við kerfið. Ég held að það sé ágætt að samgöngunefnd fari í gegnum þetta þegar frumvarpið kemur þangað og skoði NMT-kerfið, hvort tækniútbúnaðurinn í það sé jafnvel að detta fyrr út en við höfum gert ráð fyrir. Þá er það ný staða sem þarf að skoða, sérstaklega með því að auka sendafjölda fyrir GSM-kerfið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka meiri tíma í að ræða frumvarpið við 1. umr. Ég er aftur kominn í ágæta samgöngunefnd og get fjallað um málið þar og tekið þátt í vinnunni og farið í gegnum þetta. Þetta er, eins og fram hefur komið, endurflutt mál. Nefndinni bárust athugasemdir í fyrra og umsagnir frá aðilum sem ég ætla heldur ekki að fara að rekja hér, en komu fram.

Ég vil segja að lokum, virðulegi forseti, að ég held að samgöngunefnd ætti að skoða það mjög alvarlega og vel og vænti þess að við höfum stuðning hæstv. samgönguráðherra fyrir því að skoða þá leið sem við höfum rætt um í stuttum andsvörum, bæði ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, þ.e. með 75% markið og afslættina sem koma þar á eftir, hvort það væri leið til þess að gera það að verkum að þriðja kynslóð farsíma nái fyrr til ýmissa byggðarlaga við sjávarsíðuna. Þá er ég ekki að tala um hvern einasta sveitabæ, ég er ekki að tala um síðustu 5% í farsímavæðingu eins og menn hafa talað um, heldur síðustu 15%, að auka þá afslætti og hafa þá stigvaxandi vegna þessa. Ég er dálítið skotinn í þeirri hugmynd og vil að hún verði skoðuð alvarlega og vænti þess að samgöngunefnd fari í gegnum það og mun beita mér fyrir því. Ef það er vitræn leið held ég að það sé miklu betra að taka hana upp strax og vænti þess þá að samgönguráðherra styðji þá hugmynd ef hún er fær.

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum póst- og fjarskiptalög vorum við rosalega grobbin og ánægð með að setja ákvæði inn um ISDN, en rétt eftir að búið var að því var ISDN ekkert sérstakt og er bara gamalt, ég ætla ekki að segja drasl, en hægfara og hundleiðinlegt kerfi sem enginn notar í dag. Sem dæmi um muninn að vinna við ADSL-kerfi eða ISDN-kerfi þá nenna alþingismenn sem hafa sumir ISDN á lögheimili sínu stundum ekki að fara inn á það. En í upphafi síðasta kjörtímabils var ISDN það sem alþingismenn höfðu og voru þá rosalega ánægðir með það. Þetta segi ég bara til þess að sýna fram á hina öru þróun sem þarna er ... (Gripið fram í: Eins og Trabant og Benz.) eins og Trabant og Benz, já. Ef menn hefðu horft aðeins lengra fram í tímann eða unnið það frumvarp kannski einu, tveimur árum seinna, hefði ekki staðið ISDN, heldur kannski ADSL sem alkvæðaþjónusta.

Þannig er þetta nú, virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan um vinnuna við fjarskiptaáætlunina að breytingin og framþróunin væri svo ör að kannski gæti nefndin aldrei lokið störfum vegna þess að alltaf er að koma eitthvað nýtt inn. Það er nú þannig.

Ég held hins vegar að þetta sé svo mikilvægt orðið í rekstri eins þjóðfélags að nauðsynlegt sé að við tileinkum okkur alla þessa tækni strax. Þess vegna segi ég enn og aftur að ólíðandi og óþolandi mismunun á sér stað í landinu frá hendi t.d. ríkisfyrirtækisins, þó það sé komið með hf. fyrir aftan sig, Landssímans því að íbúar alls landsins eiga ekki kost á ADSL-þjónustu. Nú sagði ég alls landsins. Það er auðvitað ekki það sem maður á við heldur svona allstærsta hlutann, ekki samt upp á hvern einasta sveitabæ vegna þess að það verður bara ekkert endilega hægt. Þó verið sé að vinna að ISDN Plús eða hvað það nú heitir þá er það ágætt. En auðvitað þyrfti þetta að fara allt á þennan veg.