Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 19. janúar 2006, kl. 13:49:00 (3330)


132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Siglingastofnun Íslands.

375. mál
[13:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum. Markmið frumvarpsins er að styrkja siglingaráð sem ráðgefandi aðila fyrir Siglingastofnun og samgönguráðuneytið með aðkomu fulltrúa samtaka skemmtibátaeigenda að ráðinu. Hlutverk siglingaráðs er m.a. að fjalla um öryggismál skipa og öryggismál sjófarenda og þykir af þeim sökum eðlilegt að samtök skemmtibátaeigenda eigi þar fulltrúa til jafns við aðra hagsmunaaðila. Hingað til hafa skemmtibátaeigendur ekki haft fulltrúa í ráðinu.

Í frumvarpinu er lögð til fjölgun fulltrúa í siglingaráðinu úr ellefu í tólf. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi átta fulltrúa í ráðið eftir tilnefningu auk þriggja án tilnefningar. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilnefndir fulltrúar verði alls níu talsins og þar af einn sem hagsmunasamtök skemmtibátaeigenda komi sér saman um að tilnefna. Áfram er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi þrjá fulltrúa án tilnefningar. Fyrirkomulag þetta er sett fram í samráði við fulltrúa starfandi samtaka skemmtibátaeigenda sem í dag eru alls fjögur. Ávinningur af frumvarpinu er einkum fólginn í því að standa vörð um hagsmuni fulltrúa skemmtibátaeigenda hvað varðar öryggi í siglingu. Aðild þeirra að siglingaráði kemur til með að auðvelda þeim aðkomu að ýmsum mikilvægum málum í tengslum við öryggi sjófarenda sem og skemmtibáta og auðveldar upplýsingastreymi til þeirra.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.