Háskólar

Þriðjudaginn 21. febrúar 2006, kl. 15:41:00 (5265)


132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um ákaflega margt, t.d. friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, eins og komið hefur fram í þessum sal. En hv. þingmaður getur ekki endilega beitt þessari röksemdafærslu til þess að búa til fylgi mitt við skólagjöld. Ef hv. þingmaður væri ekki háttvirtur heldur hæstvirtur og sæti í ríkisstjórn og færi t.d. með menntamál hefði hann vafalítið getað beitt sér fyrir því að þessir skólar hefðu byggst upp með jafnöflugum hætti með stærra framlagi af hálfu ríkisins gegn því að dregið væri úr skólagjöldum.

Hv. þingmaður talar hér sjálfur þannig að skólagjöld séu ill nauðsyn. Ég tel að hægt sé að fallast þarna á ákveðna línu sem ég hef reynt að draga í ræðum mínum. En það er með þeim skilyrðum sem ég sagði hér áðan, að það verða að vera drjúg námslán og sterkir styrkir fyrir þá sem af fjárhagslegum ástæðum geta ekki notfært sé þetta valfrelsi. En ég tel að valfrelsið hafi auðgað skólaflóruna.