Kjaradeila ljósmæðra

Fimmtudaginn 02. mars 2006, kl. 10:40:16 (5464)


132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt að samningur sjálfstætt starfandi ljósmæðra við Tryggingastofnun ríkisins er runninn út og ljósmæður standa nú í kjaraviðræðum og kjaradeilu við Tryggingastofnun. Af því tilefni langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvert stefni varðandi fæðingarþjónustu almennt. Fjölbreytt þjónusta hefur verið í boði fyrir barnshafandi konur og sængurkonur á höfuðborgarsvæðinu. Það er þjónusta MFS, sérþjónusta innan Landspítalans sem hefur þjónað konum á höfuðborgarsvæðinu, og samningur við sjálfstætt starfandi ljósmæður sem hafa líka starfað á höfuðborgarsvæðinu. Síðan gildir allt önnur þjónusta fyrir barnshafandi konur og fæðandi konur vítt og breitt um landið. Hægt er að tala um fjölbreytta starfsemi á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landinu öllu. Það er ljóst að bæta þarf þjónustu við barnshafandi konur sem eru heilbrigðar á meðgöngu og þar sem búast má við eðlilegri fæðingu. Það er mikill sparnaður fyrir ríkið að koma fæðingum þessara kvenna út af hátæknisjúkrahúsum, háskólasjúkrahúsum, og yfir í aðra þjónustu og styrkja sérstaklega þjónustu í heimahúsum og sambærilega við þjónustu sem sjálfstætt starfandi ljósmæður hafa veitt, hvort sem það er á þeirra vegum eða heilsugæslunnar vítt og breitt um landið, en þá þjónustu þarf að efla til muna.