Lax- og silungsveiði

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 18:24:42 (6409)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:24]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ef Alþingi, þ.e. ríkið, tekur þá ákvörðun að banna mönnum tilteknar veiðar og sýnt er að þeir hinir sömu verði fyrir tjóni vegna þess banns sé það ríkisins að greiða bætur.

Ég segi þetta með fyrirvara. Það má vel vera að einhverjir séu ósammála mér og telji að aðrir eigi að greiða þann kostnað, eins og t.d. stangveiðimenn sem mundu hugsanlega hagnast mest á slíkri breytingu. En ég tel að bótagreiðslur vegna tjóns, sem sýna yrði fram á við slíkar breytingar, þyrftu að koma úr ríkissjóði.