Lax- og silungsveiði

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 20:34:25 (6423)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[20:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það gæti farið vel á því að það yrði samvinnuverkefni veiðifélaga og hins opinbera. Ég tel að báðir hafi hag af, hið opinbera sem fulltrúi okkar, almennings í landinu, en það á að standa vörð um náttúrugæði, sérstaklega ef vá steðjar að þeim, og svo aftur veiðifélögin sem sannarlega hafa margvíslegra hagsmuna að gæta.

Aðeins að því sem hv. þingmaður finnur að við málflutning minn um eignarréttinn. Það hafa komið fram mismunandi sjónarmið í dag um það með hvaða hætti eigi að fara í það að takmarka netaveiðar. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson frá Skarði, veiðiréttarhafi, orðaði það svo að hann vildi að menn þrengdu mjög verulega veiðiréttinn og aflegðu hann hugsanlega. Ég tel að að fornu hafi veiðirétturinn verið takmarkaður með það fyrir augum að koma í veg fyrir ofnýtingu. Það væri hægt að hugsa sér þá stöðu að allur sá veiðiréttur sem hugsanlega er fyrir hendi yrði fullnýttur. Hann er það alls ekki í dag. Því fer fjarri.

Þá er hugsanlegt að við þær aðstæður þegar stofnar eru veikir kæmust menn, t.d. hæstv. landbúnaðarráðherra sem yfirvald í málinu, að þeirri niðurstöðu að of harkalega væri gengið að stofnunum. Þá hefur hann sitt vald samkvæmt lögum til að þrengja veiðiréttinn, þ.e. að fækka veiðidögum o.s.frv. alveg eins og þáv. landbúnaðarráðherra, kollegi og flokksbróðir hans gamall, Halldór E. Sigurðsson, gerði okkur Mýramönnum til mikillar armæðu a.m.k. tvisvar sinnum svo að ég muni til.