Suðurlandsvegur

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 10:47:17 (3728)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

Suðurlandsvegur.

489. mál
[10:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um Suðurlandsveg. Hún hljóðar svo:

1. Hyggst ráðherra leggja til að Suðurlandsvegur frá Reykjavík til Selfoss verði tvöfaldaður á næstu fjórum árum? — Vísa ég þar til yfirlýsingar hans í þinginu frá því í desember sl.

2. Ef svo er, verður útboð á hönnun þrígreiningar vegarins afturkallað?

3. Hyggist ráðherra tvöfalda veginn, hvort verður það gert með því að:

a. bæta fjórðu akreininni við þrígreiningu og skilja með vegriði á milli akgreina, eða

b. aðskilja akreinar með bili/eyju?

4. Hvenær áætlar ráðherra að tvöföldun Suðurlandsvegar frá Reykjavík til Selfoss verði að fullu lokið?

Ég legg fram þessa fyrirspurn af því hún tengist þeirri grundvallarumræðu sem verið hefur um málið á síðustu mánuðum um tvöföldun á Suðurlandsvegi. Orðið hafa umskipti í viðhorfum sveitarstjórnarmanna, alþingismanna og heimamanna flestra á Suðurlandsundirlendinu til þessa máls. Almenn andstaða er við svokallaða 2+1 leið og krafa er um að farið verði í fulla tvöföldun 2+2 og skilið á milli akreina með raunverulegum hætti með bili eða eyju þar sem vegrið milli akreina er ekki viðunandi aðskilnaður milli akreina á svo umferðarþungum vegi og skapar slysahættu í sjálfu sér. Síðan bættist það við að sveitarfélagið Ölfus, þar sem vegurinn liggur að stórum hluta í gegnum, ætlar ekki að veita leyfi til framkvæmdarinnar nema um tvöföldun verði að ræða.

Eina varanlega og ásættanlega lausnin er 2+2 tvöföldun á veginum og fullur aðskilnaður á milli akreina. Við höfum áður rætt hve umferðarþungur vegurinn er orðinn, 80–90% umferðaraukning á áratug. Umferðarþunginn á brautinni er meiri en var á Reykjanesbraut þegar ákveðið var að tvöfalda hana. Bráðabirgðalausn á borð við 2+1 með vegriði á milli er ekki ásættanleg.

Við erum að tala um tafarlausa tvöföldun á Suðurlandsvegi á þessu tímabili. Um það er samstaða. Um það snýst baráttan í héraðinu og langt út fyrir það. Hægt var að skilja hæstv. samgönguráðherra svo að hann tæki undir það viðhorf að tvöfalda ætti veginn á næstu missirum, en farið hefur fram útboð á hönnun 2+1 vegar.

Því spyr ég: Verður það ekki afturkallað og ráðist í fulla tvöföldun strax? Þetta er spurning um pólitískan vilja hæstv. samgönguráðherra. Pólitískur vilji þingmanna kjördæmisins blasir við og hvernig umræðunni um endurskoðun á samgönguáætlun verður hagað hér og þess vegna kalla ég eftir afdráttarlausri skoðun hæstv. ráðherra.