Suðurlandsvegur

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 10:58:28 (3733)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

Suðurlandsvegur.

489. mál
[10:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var svo dæmalaust svar hjá hæstv. ráðherra að ég veit eiginlega ekki hvernig á að taka því, hvort á að taka því sem fyrirslætti eða undanhaldi í málinu, því það stóð ekkert á hæstv. samgönguráðherra að lýsa því yfir rétt fyrir jólin að tvöfalda ætti veginn austur fyrir fjall.

Nú er spurt um pólitískan vilja hans í málinu og það þýðir ekkert að skáka í skjóli samgönguáætlunar sem er ekki til og er ekki komin fram. Hún er sjálfsagt í vinnslu einhvers staðar en hún er ekki þinggagn. Hún er ekki í hinni opinberu umræðu. Það er náttúrlega alveg út í hött að fresta allri grundvallarumræðu um samgöngumál og samgönguverkefni vegna þess að það er ekki komin fram samgönguáætlun sem alltaf er verið að bíða eftir. Við vitum öll hér að það þýðir ekkert að skáka í því skjóli.

Að sjálfsögðu þarf að ræða þessi grundvallarmál eins og það að bjóða út hönnun á þrígreiningu á sama tíma og sagt er í þinginu að tvöfalda eigi veginn alla leið. Ég er að kalla eftir þessu hjá hæstv. ráðherra. 2+1 vegur austur fyrir fjall er einfaldlega í uppnámi. Sveitarfélögin neita að taka hann inn á sitt skipulag. Það er pólitísk andstaða við málið og það er pólitísk breiðfylking á bak við 2+2 tvöföldun vegarins alla leið.

Það er þetta og í tilefni þess að hæstv. samgönguráðherra lýsti því yfir, að ég held í fyrsta sinn, rétt fyrir jólin að hann tæki undir að tvöfalda ætti veginn sem ég kalla eftir frekari viðhorfum hans í þinginu til þessa máls sem liggur til grundvallar allri samfélagsumræðu á þessu svæði núna. Þetta er stærsta hagsmunamál Sunnlendinga allra og þúsunda annarra Íslendinga sem fara þarna austur mjög reglulega, eiga kannski sumarhús í fjórðungnum.

Þess vegna ítreka ég spurningarnar til hæstv. samgönguráðherra. Ég felli mig ekki við að ekki sé hægt að ræða samgöngumál hér af því að einhvern tímann á næstunni eigi að fara að ræða samgönguáætlun. Hún er einfaldlega ekki komin fram, hæstv. forseti.