Viðhald þjóðvega

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 11:11:12 (3737)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

viðhald þjóðvega.

332. mál
[11:11]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í svari hæstv. ráðherra komu fram mjög athyglisverðar staðreyndir, þ.e. að á því sex ára tímabili sem hann fór yfir, sem eru annars vegar liðin ár og tvö sem eru fram undan, þá hafi 2,5–3 milljarðar verið áætlaðir í viðhald á vegum. En síðan er gert ráð fyrir 10–11 milljörðum á ári þar á eftir. Þetta segir allt um það að á undanförum árum, eins og allir vita sem ferðast um vegi landsins, hefur viðhald vega verið látið drabbast niður með alveg sérstaklega vondum afleiðingum og við sjáum það alls staðar þegar við förum um vegina. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki staðið sig í stykkinu enda hefur oft verið á það bent að í þetta vanti gríðarlega fjármuni og fram undan eru bókstaflega endurbyggingar á vegum landsins að stórum hluta.