Sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 14:16:19 (3854)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:16]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem aðallega upp til þess að lýsa yfir fögnuði með ummæli hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi varðandi það að hér er gefin afdráttarlaus yfirlýsing um að Háskóla Íslands verði skipt upp í fleiri skóla eins og til hefur staðið og að fullur stuðningur hæstv. ráðherra er við þá fyrirætlan. Síðan kemur hér til viðbótar alveg sérstakt gleðiefni sem er yfirlýsing hæstv. ráðherra varðandi það að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að allir háskólar eigi að heyra undir menntamálaráðuneytið.

Þetta er gífurlega mikilvæg yfirlýsing frá hæstv. ráðherra og ég tek heils hugar undir hana. Ég held að það sé eitt af lykilatriðunum til að ná utan um þessa starfsemi að þetta heyri allt undir eitt ráðuneyti.

Ég verð því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi eingöngu orðið til hjá hæstv. ráðherra á þeim tíma sem umræðurnar áttu sér stað. Eða hefur hæstv. ráðherra kannski orðað þetta einstaka sinnum á ríkisstjórnarfundum? Hafa ekki verið þokkalegar undirtektir?

Það var ekki hægt að skilja orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þegar þetta markmið næðist, sem ég vona að verði sem allra fyrst, mætti hugsanlega vænta fleiri sameininga meðal háskóla. Ég tek undir það. Það hlýtur að koma til greina þegar þetta hefur náðst.

Mér finnst alveg sérstakt gleðiefni að hæstv. ráðherra gefi þessar yfirlýsingar hér.

Það var aðeins eitt mál, svo að það valdi engum misskilningi, varðandi húsnæðismálin. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra hefði tekið sérstaklega fram að breytingar á Laugarvatni kæmu alls ekki til greina. Ég verð að vekja athygli á því að með slíkri yfirlýsingu, ef ég hef ekki misskilið, er gengið aðeins á svig við það sem segir í niðurstöðum starfshópsins sem skilaði af sér 8. nóvember 2006. Þar er ekki tekið af skarið með að engar breytingar megi gera á Laugarvatni heldur er talið að það þurfi að skoða þetta heildstætt en ég verð að koma betur inn á það í seinna andsvari mínu.