Æskulýðslög

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 15:13:36 (3866)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:13]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til umræðu á ný frumvarp til æskulýðslaga en mælt var fyrir því fyrir réttu ári. Málið er mér að nokkru skylt því að ég var bæði formaður nefndar sem gerði úttekt á stöðu félags- og tómstundamála barna og ungmenna sem skilaði skýrslu til menntamálaráðherra að mig minnir á árinu 2003. Í framhaldi af því var ég beðin um að taka að mér að leiða þá nefnd sem samdi frumvarpið sem nú er komið til umfjöllunar í annað sinn á hinu háa Alþingi.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar var frumvarpið tekið til ítarlegrar umræðu innan menntamálanefndar og var í raun útrætt og komið til 2. umr. en var ekki afgreitt á síðasta vori. Frá því að það var lagt fram fyrir ári hefur það tekið ákveðnum breytingum, en ég tel að frumvarpið ætti að geta farið fljótt í gegnum þingið og fyrir vorið því að ég veit að það eru margir einmitt sem starfa í frjálsum félagasamtökum, æskulýðsstarfi og hjá sveitarfélögunum sem bíða eftir að fá frumvarpið því að þeir telja það vera til mikilla bóta.

Eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra er eðli frumvarpsins með aðeins öðrum hætti en núgildandi lög. Tilgangur núgildandi laga var sá að setja reglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarf og öll lögin sniðin að því, en með frumvarpinu er fókusinn breyttur og þar eru mikilvægar áherslubreytingar þar sem fyrst og fremst er horft til þess að skilgreina hvað er æskulýðsstarf, hver tilgangurinn sé með æskulýðsstarfi og hvernig vernda eigi börn og ungmenni sem taka þátt í slíku starfi.

Æskulýðsstarfið er skilgreint mjög vítt að því leyti að það tekur til æskulýðsstarfs sem er á vegum frjálsra félagasamtaka jafnt sem á vegum opinberra aðila, sem sagt jafnt til sjálfboðastarfs sem starfs sem launaðir starfsmenn sinna. Ég tel að með frumvarpinu, þegar það verður að lögum, skapist betri rammi utan um starfsemina sem gefur forráðamönnum slíkrar starfsemi betri tæki í hendurnar til þess að ráða til sín starfsmenn og hvaða kröfur þeir geta sett gagnvart slíkum starfsmönnum.

Fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að hann hafði ákveðnar efasemdir um að slík lög ættu rétt á sér, gat maður skilið alla vega til að byrja með, en síðan fór hann í hina áttina og taldi að þetta væri sennilega rétt. Hins vegar er okkur alveg ljóst sem tókum þátt í því að móta frumvarpið að vilji félagasamtakanna var mjög sterkur. Við kölluðum til okkar fulltrúa allra helstu samtaka sem starfa hér á landi og einnig fulltrúa sveitarfélaganna og þeim fannst mikill akkur í því að fá endurskoðun á lögunum.

Hlutverk Æskulýðsráðs hefur komið aðeins til umræðu og er samkvæmt nýja frumvarpinu töluvert breytt. Það er útvíkkað og hefur fengið mikið rými til þess að marka stefnu og veita hæstv. menntamálaráðherra ráð um hvernig betur verði hlúð að starfinu til framtíðar. Jafnframt er með frumvarpinu viðurkenndur ákveðinn vettvangur félaga sem mynda samtök um starfsemi sína og þeim gefið mjög mikið rými til þess að hafa áhrif á þróun þeirra mála.

Í frumvarpinu er jafnframt Æskulýðssjóður festur í sessi en hann var stofnaður fyrir nokkrum árum en hefur ekki lagastoð fyrr en með frumvarpinu þegar það verður að lögum. Hlutverk Æskulýðssjóðs er að styrkja ákveðin frumkvöðlaverkefni, ákveðin framfaraverkefni á vegum æskulýðsfélaga, en það er ekki hugmyndin að æskulýðsfélög og félagasamtök sæki um styrki til Æskulýðssjóðs til reksturs. Félög og samtök, sérstaklega landssamtök eins og Landsbjörg, skátahreyfingin, KFUM og KFUK, Skáksambandið og fleiri ungliðadeildir landsfélaga hafa sótt til fjárlaganefndar um stuðning. Það kom einmitt fram í skýrslu nefndar sem ég var formaður í, að styrkir til slíkrar starfsemi hafa farið vaxandi á síðustu árum en jafnframt kom fram að styrkir til starfsemi á vegum sveitarfélaga hafa vaxið og margfaldast og er verulegur munur þar á. Það komu einmitt fram mjög sterkar skoðanir nefndarmanna og ekki síst þeirra sem komu á fund nefndarinnar, að mikil þörf væri á því að sveitarfélögin leituðu í ríkari mæli samstarfs við frjáls félagasamtök við skipulagningu á æskulýðsstarfi og veittu þeim aukinn stuðning til starfsemi sinnar því að það hefur sýnt sig að mikil starfsemi á vegum sveitarfélaga hefur gert það að verkum að ungmennastarf, t.d. skáta og kirkjufélaga, hefur liðið að sumu leyti fyrir mikla virkni í starfi sveitarfélaganna. Þess vegna kom það mjög skýrt fram að æskilegt væri að sveitarfélögin leituðu aukins samstarfs við frjáls félagasamtök. Þegar frjáls félagasamtök eiga í hlut er þumalputtareglan sú að hver króna af opinberu fé sem fer til slíkrar starfsemi virðist margfaldast og hefur þumalputtareglan verið sú að hún tífaldist. Þá er metið sjálfboðastarfið inn í það og jafnframt það fjármagn sem hin frjálsu félagasamtök fá með sérstakri fjáröflun.

Þungamiðjan í frumvarpinu snýr að verndun ungmenna að mínu mati og það hefur verið töluvert um það rætt m.a. af hv. þingmanni sem talaði á undan mér. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að fólk er almennt þeirrar skoðunar að grípa þurfi til nauðsynlegra ráðstafana til þess að einstaklingar sem hafa verið að brjóta af sér og sem hafa brotið gegn 22. kafla almennra hegningarlaga varðandi kynferðisbrot, að þetta fólk sé ekki æskilegt, og ekki bara æskilegt, það sé óviðeigandi að slíkt fólk starfi með ungu fólki á vettvangi æskulýðsfélaga eða félagasamtaka. Ég held að við þurfum ekki annað en að líta til umræðu síðustu daga til þess að sjá að rétt er að fara þá leið.

Hins vegar hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram fyrir ári varðandi ákvæði um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Það hefur verið takmarkað og miðað við síðustu fimm ár. Dregið hefur verið m.a. í efa að rétt sé að fólk sem hefur verið í ávana- og fíkniefnum leiti í þessa starfsemi, hætt sé við að það leiti eftir tengslum við börn og ungmenni til þess að afla markaðar fyrir vöru sína og leiði þau inn á braut fíkniefna. Mig langaði í þessu sambandi að lesa upp úr netpósti sem ég fékk í mars í fyrra þegar þessi umræða var mikið í fjölmiðlum frá manni sem hafði einmitt þá reynslu sem hv. þm. Mörður Árnason dró í efa áðan.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég var að lesa viðtal við“ — nafngreindan mann sem skiptir ekki máli hver er — „í Blaðinu þar sem hann segir að hann hafi heyrt orðróm um að fíkniefnasalar reyni að hasla sér völl innan íþróttafélaga en hann hafi ekki verið staðfestur. Þetta tel ég rangt. Ég sat sem stjórnarmaður í stóru íþróttafélagi á höfuðborgarsvæðinu um langa hríð og við urðum fyrir því einu sinni að ráða framkvæmdastjóra einnar deildarinnar sem hafði með börn og unglinga og gera, gríðarlega ábyrgðarfullt starf. Því miður misnotaði þessi einstaklingur sér aðstöðu sína með því að bjóða fíkniefni unglingum sem voru í keppnisferð norður í landi og var tekinn fyrir það. Guð einn veit hversu oft hann hafði gert það áður. Hann síðan sendi handrukkara á þá drengi sem sögðu til hans og seinna meir hlaut hann dóm fyrir fíkniefnabrot og nauðgun á 16 ára stúlku.

Þarna vorum við grandalausir og höfðum ekki skoðað bakgrunn mannsins nógu vel. Hann hafði tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi fyrir félagið og hann vann traust okkar sem stjórnum eflaust vegna þeirra starfa. Síðan sótti hann stíft að fá framkvæmdastjórastöðuna sem hann fékk illu heilli.

Það er sitthvað þó að óvirkir fíklar séu leiðbeinendur á meðferðarheimilum, eins og hjá AA, eða hvort þeir eigi að stjórna ungmennum sem eru að vinna að auknu heilbrigði með ástundun sinni.“

Þetta er maður sem hefur mikla reynslu af starfi í íþróttafélagi og lenti í því að maður sem hafði verið ráðinn og átti að gegna forustustarfi fyrir æskulýðsstarf, íþróttastarf, brást traustinu.

Ég held því að full ástæða sé til þess að fara varlega og ég hef ákveðnar efasemdir um þá breytingu sem hefur verið gerð á frumvarpinu um að takmarka það við að brotið hafi átt sér stað innan fimm ára. Ekki síst hafa atburðir síðustu daga styrkt þá skoðun mína að það sé e.t.v. ekki rétt að gera þá breytingu. Á hinn bóginn má líka segja að ef það verður til þess að lögin fari í gegn geti ég svo sem fallist á það. Á hinn bóginn má líka segja að það er komin ný málsgrein í 10. gr. sem snýr að því að heimilt sé yfirmönnum skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem ung börn og ungmenni koma saman eða dveljast um lengri tíma, og 2. gr. tekur til, þ.e. skipulagt æskulýðsstarf, eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna brota sem 3. mgr. tekur til, að fengnu samþykki hans.

Segja má að þetta ákvæði bæti hitt upp því að það er náttúrlega enginn sem segir það að hafi einhver hlotið dóm fyrir meira en fimm árum að viðkomandi verði ráðinn til slíkra starfa. Það er alveg ljóst að málsgreinin er í samræmi við þá praktík sem er í gangi hjá t.d. sveitarfélögum og hjá þeim sem reka sumardvalarheimili og hjá mörgum í frjálsum félagasamtökum, að þeir eru farnir að óska eftir því að fá sakaskrá. En það er, eins fram kemur þarna, að fengnu samþykki viðkomandi og ef viðkomandi veitir ekki slíkt samþykki er náttúrlega alveg ljóst að eitthvað er ekki í lagi. Ég tek undir það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði, að það er almennt ekki æskilegt að afbrotamenn starfi með börnum og ungmennum og ég held að það sé hin almenna regla sem forustumenn æskulýðsstarfs fara eftir. Samkvæmt mínum upplýsingum hafa þeir óskað eftir upplýsingum úr sakaskrá að fengnu samþykki viðkomandi og hafa tekið mið af því sem þar kemur fram við ráðningu. Það má því segja að kannski sé sama tilgangi náð en jafnframt má segja að með því er verið að opna á það að einstaklingur sem hefur einhvern tíma verið á þessari braut hafi hugsanlega eitthvert gagn af því og börnin hafi eitthvert gagn af því að umgangast hann þó að ýmsir hafi reyndar ákveðna fyrirvara á því.

Varðandi æskulýðsrannsóknir af því að þær komu til umræðu áðan, er alveg ljóst að þær reglubundnu æskulýðsrannsóknir sem gerðar hafa verið hér á undanförnum árum, m.a. á vegum Rannsóknar og greiningar, hafa reynst afar gagnlegar við að meta æskulýðsstarf, að meta hvort sérstaklega viðkomandi sveitarfélög séu á réttri leið varðandi áherslur sínar. Það vill þannig til að í dag, nákvæmlega núna á meðan við ræðum frumvarpið, er verið að kynna nýjustu rannsóknina sem nær til 9.–10. bekkjar. Það er mjög áhugavert að skoða þær rannsóknir og skoða hvernig niðurstöðurnar eru mismunandi á milli sveitarfélaga og getur verið lærdómsríkt fyrir sveitarfélögin að átta sig á hver vandinn er í æskulýðsmálum eða varðandi ungmennin í viðkomandi sveitarfélögum og hverjar eigi þá að vera áherslur sveitarfélagsins til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frumvarpið er komið fram. Ég tel að það leiði til mikilla framfara, skapi styrkari ramma utan um starfsemina og það sem mest er um vert, að það verði til þess að vernda börn og ungmenni í meira mæli en hingað til hefur verið gert. Við höfum oft verið sofandi í þessum málum en ég held að umræða bæði síðustu missira og síðustu daga bendi okkur á að við þurfum að fara mjög varlega í þessum efnum og við þurfum í öllum ákvörðunum okkar að láta börnin njóta vafans.