Heilbrigðisþjónusta

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 19:33:00 (6850)


133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[19:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um mikinn lagabálk sem hefur verið lengi í vinnslu. Það er sitthvað gott í lögunum en við hefðum talið heppilegra að þau hefðu fengið enn meiri umfjöllun. Við tölum um lagasmíð, grundvöll sem á að gilda til langs tíma. Heilbrigðisþjónustuna á að skipuleggja á grundvelli velferðarsjónarmiða en ekki viðskipta. Frumvarpið byggir að verulegu leyti á viðskiptahugsun. Það fjallar um kaupendur og seljendur, það fjallar um kaup og sölu. Að mínu mati þarf að hugsa langt fram í tímann og máta löggjöf af þessu tagi í heim þar sem viðskiptaöfl ásælast sífellt stærri hlut í velferðarþjónustunni og nýta sér lagalegar skilgreiningar oft frammi fyrir dómstólum. Hér skipta alþjóðlegir samningar og skuldbindingar máli. Ég vísa í því sambandi í átökin sem hafa átt sér stað um mótun og síðan skilgreiningar í þjónustutilskipun Evrópusambandsins og þá ekki síður í fyrstu ákvæði GATT-samninganna en þar er velferðarþjónustan undanskilin markaðsskuldbindingum nema þegar hún er skipulögð á viðskiptagrunni jafnvel þótt hið opinbera greiði fyrir þjónustuna. Við þurfum að hafa það í huga að þetta umhverfi er allt saman á hreyfingu og við þurfum að gæta að okkur og hugleiða hvert við viljum fara, hvort við ætlum að ýta þjónustunni út á markaðstorgið.