Stjórnarskipunarlög

Föstudaginn 03. nóvember 2006, kl. 14:45:08 (930)


133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[14:45]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Í því frumvarpi eru lagðar til breytingar í þremur liðum á núverandi stjórnarskrá. Hver og ein breyting er ákaflega þýðingarmikil og miða þær allar að sama marki, þ.e. að tryggja það sem mælt er fyrir um í stjórnarskránni um þrískiptingu valdsins, sérstaklega aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.

Ég tel að það sé ákaflega þýðingarmikið að hinir þjóðkjörnu fulltrúar sem sitja á Alþingi sinni verkefnum sínum í samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Það að fara með löggjafarvald er ákaflega mikilvægt vald og við megum ekki veikja það með því að færa það vald að hluta, stundum að verulegu leyti, í hendurnar á framkvæmdarvaldinu þar sem enginn þjóðkjörinn fulltrúi er. Eins og menn vita þá er ríkisstjórn ekki kosin í beinum kosningum og enginn ráðherra hefur beint umboð frá kjósendum sínum. Embættismenn eru heldur ekki kosnir eins og tíðkast sums staðar erlendis þannig að þeir eru allir í þannig stöðu að enginn þeirra hefur almennt umboð.

Til þess að vinna að þrískiptingunni legg ég til í fyrsta lagi til að ákvæði stjórnarskrárinnar um bráðabirgðalagavald framkvæmdarvaldsins eða vald einstakra ráðherra til að gefa út lög verði fellt brott. Þetta ákvæði hefur mikið verið notað frá því að það var sett í stjórnarskrána 1874 sem þá var af eðlilegum ástæðum. Alþingi sat þá aðeins annað hvert ár og í örfáar vikur hvert sinn að sumri. Þess á milli þurfti einhver að hafa umboð Alþingis til að ganga frá nauðsynlegum ákvörðunum í formi lagasetningar. Líklega hefur bráðabirgðalagavaldinu verið beitt um 450 sinnum frá upphafi, mjög oft framan af og t.d. á 8. og 9. áratug síðustu aldar var því beitt um 100 sinnum af ýmsum ástæðum. Hins vegar hefur dregið mjög úr notkun þess eftir breytinguna á skipan Alþingis 1991 þegar deildaskipting var afnumin. Líklega hefur bráðabirgðalögum aðeins verið beitt innan við tíu sinnum frá þeim tíma, sem er til mikilla bóta og kannski sterk röksemd fyrir því að stíga skrefið til fulls og afnema þetta vald.

Segjum að menn séu á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að einhver hafi lagasetningarvald við kringumstæður sem Alþingi gæti ekki komið saman og sett lög þá er það mín skoðun, þótt ég vilji ekki fallast á að svo eigi að vera, að eðlilegast væri að bráðabirgðalagasetningarvaldið væri í höndum fulltrúa Alþingis en ekki fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Fulltrúar Alþingis væru forseti Alþingis eða einhver slíkur aðili sem mundi hafa þá heimild eftir því sem menn teldu nauðsynlegt. En ráðherrar eru ekki fulltrúar Alþingis vegna þess að þingræðið hér á landi er ekki þannig að ráðherrar séu kosnir af Alþingi. Þeir eru einungis kosnir af þingflokkum en ekki þinginu sjálfu. Þeir eru ekki formlega fulltrúar Alþingis. Ég vildi draga þetta sjónarmið fram.

Síðast var bráðabirgðalagavaldinu beitt fyrir þremur árum við mjög óvenjulegar aðstæður og á mjög óvenjulegan hátt sem færði mér heim sanninn um að mönnum tekst alltaf að finna nýjar röksemdir eða nýjar leiðir sem ekki hafa áður verið farnar. Það hefur orðið mér tilefni að komast að þeirri niðurstöðu að loka beri fyrir þennan möguleika. Mér er ekki kunnugt um að menn hafi áður stigið það skref sem þá var stigið, að taka frumvarp sem lá fyrir Alþingi og var komið til fagnefndar Alþingis og nefndin vildi ekki gera að lögum, að taka það frumvarp og gera að lögum með bráðabirgðalagavaldi. Mér er ekki kunnugt um að menn hafi stigið það skref fyrr og vonandi munu menn aldrei gera það síðar. Þetta var mjög óvanalegt enda kom í ljós að þegar bráðabirgðalögin voru lögð fyrir Alþingi til staðfestingar eins og skylt er að gera þá staðfesti Alþingi ekki lögin heldur breytti þeim umtalsvert og þannig voru þau samþykkt. Í raun afgreiddi Alþingi þessi bráðabirgðalög þannig að þau voru aldrei staðfest eins og þau voru látin gilda. Þetta er um bráðabirgðalagavaldið.

Í öðru lagi er nauðsynlegt vegna þess að þjóðfélagið er orðið miklu flóknara en áður var að alþingismenn einbeiti sér að því að sinna því starfi og ráðherrar einbeiti sér að því að sinna því starfi og séu ekki samhliða áhrifamestu þingmenn löggjafarvaldsins. Þess vegna held ég að stíga verði þetta skref, skilja þarna á milli og fá menn til að gera það upp við sig að annaðhvort leggi þeir út á þá braut að sækjast eftir kjöri á löggjafarþingið og starfa þar ellegar að komast á hina brautina, að ná frama á öðrum vettvangi til að verða ráðherrar en ekki hvort tveggja. Ég held að í þessum efnum dugi ekki annað en skýrar línur, annaðhvort eða en ekki bæði og.

Ég ætla ekki að segja meira um þennan þátt málsins að öðru leyti en því að minna á samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins sem hafa verið á þá lund sem ég hef talað fyrir, að styrkja þrígreiningu valdsins og í öðru lagi, sem er annar þáttur frumvarpsins, að ráðherrarnir sitji ekki á Alþingi. Ég hef að nokkru leyti komið inn á það fyrr í ræðu minni. Það að taka af ráðherrum vald til að setja lög og að ákveða að ráðherrar sitji ekki á Alþingi eru að mínu viti nauðsynlegar breytingar til að framkvæmdarvaldið sinni því sem því er ætlað og löggjafarvaldið því sem því er ætlað.

Til viðbótar því sem fram kemur í 1. og 2. gr. frumvarpsins og þeim rökstuðningi sem fram hefur komið með þeim minni ég á að ég hef flutt frumvarp um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins sem er að vísu ekki á dagskrá þessa fundar en mun verða síðar í vetur. Það er af sama toga. Þar legg ég til að úr þeim lögum verði felld brott heimild fjármálaráðherra til að ákveða útgjöld úr ríkissjóði án lagaheimildar. Ég tel að það gangi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar sem er mjög skýr að mínu viti, þess efnis að engin útgjöld megi greiða úr ríkissjóði án heimildar í lögum. Ég tel að 33. gr. fjárreiðulaganna sé ekki í samræmi við stjórnarskrána og mun leggja til, þegar það mál verður á dagskrá, að sú heimild verði felld brott. Hún er einmitt lögð fram af sömu ástæðum og þessar tillögur um breytingar á stöðu ráðherra og bráðabirgðalagavaldi.

Þriðja breytingin í þessu stjórnarskipunarfrumvarpi er um hvernig eigi að ákvarða breytingar á stjórnarskránni. Það hefur verið þannig að Alþingi sjálft ákvarðar breytingar á stjórnarskránni. Það tel ég óeðlilegt vegna þess að þjóðin setur stjórnarskrána í upphafi í almennri atkvæðagreiðslu. Það er ekki löggjafarvaldið og ekki framkvæmdarvaldið og ekki dómsvaldið heldur þjóðin sjálf. Það er óeðlilegt að framkvæmdarvaldið geti síðan ákvarðað allar breytingar á stjórnarskránni án þess að leggja þær fyrir þjóðina, sem er stjórnarskrárgjafinn sem kallað er. Það hafa stjórnarflokkar gert í gegnum áratugina með því að ná samkomulagi um breytingar, afgreiða þær á Alþingi, síðan eru þingkosningar á milli og nýtt þing staðfestir breytingarnar en breytingarnar sjálfar eru aldrei bornar undir kjósendur. Kjósendur hafa aldrei greitt atkvæði um þær og hvað þeim finnst um þær tilteknu breytingar. Þeir munu aldrei geta það vegna þess að í almennum þingkosningum eru auðvitað fjöldamörg önnur mál í umræðunni sem kosið er um þannig að það verður aldrei hægt að fá skýra vitneskju um vilja almennings til tiltekinna breytinga á stjórnarskránni.

Ég legg til að þessu verði breytt þannig að allar breytingar á stjórnarskránni sem Alþingi kann að gera verði lagðar fyrir atkvæði þjóðarinnar þannig að þjóðin þurfi á endanum að ákveða breytingar á stjórnarskránni. Það er ákveðin málamiðlun, að Alþingi kemur sér saman um breytingar á stjórnarskránni sem síðan eru lagðar fyrir þjóðina sem ákveður hvort þær nái fram að ganga eða ekki. Það teldi ég til verulegra bóta og í samræmi við þau sjónarmið sem hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum, að sami aðili sé ekki með marga hagsmuni í sama málinu. Það er ekki eðlilegt að þingmenn, sem eiga stöðu sína undir úrslitum kosninga, geti ráðið því hvernig kjördæmaskipan er, kosningareglur og annað slíkt sem hefur áhrif á stöðu þeirra, á sama hátt og talið er eðlilegt að menn blandi ekki saman hagsmunum á öðrum sviðum í stjórnsýslunni.

Virðulegi forseti. Ég held að ég láti framsögu minni lokið með þessum fáu orðum um þetta mál. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og sérstakrar nefndar sem tekur við frumvörpum til stjórnarskipunarlaga.