Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna

Þriðjudaginn 12. júní 2007, kl. 15:44:36 (0)


134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:44]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef smáathugasemd í formi andsvars við ræðu hv. þingmanns, án þess að ég ætli að gera neinar athugasemdir við málflutning hennar. Mig langar að geta þess, af því hún gerði málsmeðferðina í nefndinni að umræðuefni, að það hefur frekar verið regla en undantekning að taka marga saman inn til nefndar þegar fjallað er um svona þingmál. Ég hef t.d. setið í heilbrigðis- og trygginganefnd í á annan áratug og þar hefur þetta viðgengist. Auðvitað vildi maður hafa sem bestan tíma með sem fæstum í einu á nefndarfundum þegar fjallað er um svona mál. En það er engin undantekning hvernig málið var tekið fyrir í nefndinni.

Vegna þess að hv. þingmaður talaði um að menn hefðu ekki viljað gera breytingar á þingsályktuninni þá eru ekki gerðar breytingar á þingsályktunum nema kannski á ályktunargreinum og þá yfirleitt þegar um er að ræða þingmannamál sem koma inn í nefndina. Þá hafa nefndirnar gert breytingar en stjórnarályktanir hafa yfirleitt alltaf, svo mig rekur minni til, farið óbreyttar út úr nefnd.

Aftur á móti hafa menn komið með athugasemdir í nefndaráliti og síðan náttúrlega í ræðum í seinni umferð í þinginu. Ég vildi bara koma þessari athugasemd að, án þess að ég andmæli nokkru í ræðu hv. þingmanns.