Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna

Þriðjudaginn 12. júní 2007, kl. 16:31:46 (0)


134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fengum ekki upplýsingar um stöðu málsins í nefnd ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum, hvort reynt hefði á að flokkarnir næðu saman um aðgerðir í þeim efnum og eða ekki. Varðandi vaxtabætur minni ég á að núverandi sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir og gerði það á síðasta kjörtímabili að hann teldi rétt að fella þær alveg niður. Hann var andvígur því að hafa vaxtabætur, þær skekktu markaðinn. Ég minni á nýlegt álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gengur mjög langt í þá veru að saka í raun Íbúðalánasjóð um að vera valdur að því að vandræði séu hér í efnahagslífinu vegna þess að hann nái of góðum árangri í samkeppni við viðskiptabankana, of góðum árangri í þeim skilningi að lántakendur fái of góð kjör sem verði til þess að þeir hafi of mikinn kaupmátt sem er síðan vandamálið í efnahagslífinu um þessar mundir að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Varðandi áfengismálin þá er ég búinn að fara yfir það með viðeigandi fræðslu. Það er út af fyrir sig ágætt en það liggur bara fyrir að það hefur enga þýðingu, það hefur engin áhrif í þá veru sem menn vilja væntanlega ná, þ.e. að draga úr neyslunni, draga úr vandanum og úr kostnaðinum.

Um aðgengi ungmenna undir lögaldri að áfengi sem getið er um er það út af fyrir sig rétt að það stendur þar en ég spyr þá: Hvað felur þetta í sér? Undir lögaldri þýðir væntanlega 18 ára. Er þá meiningin sú að halda áfram því sem menn hafa gert að reyna að koma í veg fyrir að ungmenni undir 18 ára nálgist áfengi? Og er þá meiningin sú að lækka áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár, eins og hæstv. félagsmálaráðherra hefur ítrekað lagt til á Alþingi?