Málaskrá ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 29. janúar 2008, kl. 14:04:49 (4037)


135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[14:04]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Tíminn líður. Þannig var að síðastliðið haust kom fram listi, eins og venja er í tengslum við stefnuræðu forsætisráðherra, og þar var gefið upp hvaða þingmál hæstv. ríkisstjórn hygðist leggja fram í vetur. Þetta voru milli 160 og 170 mál. Síðan eru liðnir fjórir mánuðir.

Ég fór yfir það í morgun hvað væri komið fram af þessum málum og þau eru 75. Það eru bara tveir mánuðir til stefnu og í raun einn og hálfur því að páskafrí kemur inn í þennan tíma. Ég velti því fyrir mér hvað hæstv. ríkisstjórn sé að gera. Það er mjög gaman á ríkisstjórnarfundum, við lesum um það á bloggsíðum, en það er ekki nóg, það þarf líka að vinna. Ég get tekið sem dæmi: Menntamálaráðherra hefur lagt fram 6 mál af 19, heilbrigðisráðherra 4 af 15, utanríkisráðherra 3 af 23, viðskiptaráðherra 9 af 22, umhverfisráðherra 4 af 12, félagsmálaráðherra 4 af 15 og samgönguráðherra 9 af 15. Það er því kominn fram innan við helmingur þeirra mála sem við eigum eftir að vinna í vetur. Ég get því ekki annað en spurt hæstv. forsætisráðherra hvað líði framlagningu mála hjá hæstv. ríkisstjórn og hvort hæstv. ráðherrar verði ekki að fara að spýta aðeins í lófana ef þetta á allt að klárast, því að það er ekki góður svipur á því ef við verðum með öll þessi mál í maímánuði.