Skattamál

Þriðjudaginn 26. febrúar 2008, kl. 13:58:32 (5067)


135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um skattalækkanir og nýútkomna bók um skattalækkanir til kjarabóta hlýt ég að varpa fram þessari spurningu til hæstv. forseta: Má ekki ræða hér á Alþingi hagfræðilegar rannsóknir sem virtir fræðimenn á sviði hagfræði hafa gert, þar á meðal nóbelsverðlaunahafar, ef þær rannsóknir og niðurstöður þeirra eru ekki í samræmi við skattalækkunarstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Er það óheimilt? (Gripið fram í: Ég fagna því.) Það hefði ég ekki haldið. En mér finnst ansi aumt að kalla þessa umræðu þjóðhátíð eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerir og að væna þá sem taka þátt í þeirri umræðu um að hafa gert ræðustól Alþingis að einhverjum auglýsingapalli fyrir þessa bók.

Ég minnist þess ekki að við sem höfum tekið þátt í umræðum um ýmis þjóðmál hér á hinu háa Alþingi höfum haft uppi viðlíka málflutning þegar t.d. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur fjallað af miklum þunga um rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors eða þegar skýrslur Hörpu Njáls hafa verið ræddar hérna. Hvað þá þegar til umræðu hafa komið merk tímarit sem BSRB hefur gefið út í tengslum við ýmis þjóðþrifamál í landinu. (Gripið fram í: Og Bændablaðið líka. ) Já eða Bændablaðið eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefnir. Nei, við höfum borið virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem þar hafa komið fram og það ætti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon líka að gera gagnvart þeim fræðimönnum sem birta greinar sínar í hinni nýútkomnu bók.

Það er rétt að það er forgangsatriði hjá okkur sjálfstæðismönnum að lækka skatta, bæði á fólk og fyrirtæki. Og þó svo að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé ekki sáttur við þá framtíðarstefnu okkar, og telji að um hana verði aldrei sátt, (Forseti hringir.) get ég upplýst hann um það að það verður aldrei sátt um sósíalisma á Íslandi.