Heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 14:19:16 (5213)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:19]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn að tala um að afskrifa Afganistan, segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég gat reyndar ekki betur heyrt á málflutningi þingmannsins en hann væri einmitt að leggja til að Íslendingar afskrifuðu Afganistan vegna þess að hann lagði til að Ísland drægi sig út úr þessum aðgerðum og færi í burtu, vegna þess að honum hentar ekki að Ísland sé að berjast eins og hann kallar það. Við hin köllum það að vinna borgaralega að uppbyggingarstarfi í þessu stríðshrjáða landi. Hann leggur bara til að Ísland hverfi á braut en allir hinir eigi ekki að afskrifa Afganistan, nei, nei, hinir eiga að sjá um þetta. Þarna kom loksins réttur málflutningur þingmannsins í ljós

Eigum við heima í klúbbnum? Eigum við að ganga úr honum? Mitt svar við því er mjög einfalt: Auðvitað eigum við heima í klúbbnum. Þessi klúbbur, sem þingmaðurinn kýs að kalla svo, innganga okkar í hann hefur reynst okkur hið mesta gæfuspor í utanríkismálum síðan við gengum í það bandalag. Það að þingmaðurinn dregur úr því, til háðungar, og gerir lítið úr því að árangur hafi náðst í baráttunni í Afganistan, af því að það hentar ekki málstaðnum að hægt sé að sýna fram á að einhver árangur hafi náðst, finnst mér vera þingmanninum til minnkunar.