Tæknifrjóvgun

Mánudaginn 31. mars 2008, kl. 15:43:11 (5797)


135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:43]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir örfáum þáttum sem ég hefði að öðrum kosti gert við 3. umr. Hv. heilbrigðisnefnd tók málið til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og kallaði fulltrúa vísindasiðanefndar til sín. Í máli þeirra kom fram að þeir sætta sig við þann starfsramma sem nefndinni er ætlaður samkvæmt frumvarpinu.

Í öðru lagi vil ég taka fram að frumvarpið fjallar fyrst og fremst um heimild til að nota umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna til að búa til stofnfrumulínur sem geta nýst til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma. Lög um lífsýnasöfn gilda á hinn bóginn eftir því sem við á um geymslu stofnfrumna og stofnfrumulína sem búnar verða til úr fósturvísum og eggfrumum sem kjarnaflutningur hefur verið framkvæmdur á og verða þeir sem stunda rannsóknir að sækja leyfi til vísindasiðanefndar í samræmi við ákvæði laga um lífsýnasöfn.

Að lokum leggur hv. heilbrigðisnefnd áherslu á að í reglugerð sem sett verður og varðar ákvæði laganna sem fjallar um upplýst samþykki verði kveðið skýrt á um að vilji kynfrumugjafa liggi ljós fyrir þegar umframfósturvísi er ráðstafað til stofnfrumurannsókna.