Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

Þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 18:19:01 (6453)


135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:19]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir það leitt ef orðstír minn hefur borist þannig til hv. þingmanns að iðnaðarráðherra sé hræddur við að taka ákvarðanir. Ég held að ég sé það ekki.

Hv. þingmaður misskilur þetta frumvarp hrapallega. Gagnrýni hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur byggist á ákveðnum rökum um frestinn og hv. þingmaður getur gagnrýnt það og lagt það út með þeim hætti að þar sé einhverjum hyglað, en það er ekki svo. En hv. þingmaður getur með engu móti haldið því fram að þarna sé verið að auðvelda framgang máls með þeim hætti sem hann lýsti. Það er ljóst að ef Landvernd eða umhverfisverndarsamtök eru ósátt við niðurstöðu Orkustofnunar þá hafa þau leyfi til að skjóta málinu til ráðherra. (Gripið fram í.) Það er partur af réttarörygginu og almennt viðurkennt af … (ÁI: Það er ekki einu sinni búið að lögleiða Árósasamninginn.) Bíddu við, það er partur af almennu réttaröryggi í landinu og hefur verið fundið að því við okkur. Þess vegna fórum við í viðamiklar breytingar á lagabálkum sem varðar réttarríkið fyrir einum áratug röskum til að gera mönnum kleift að njóta ávallt umsagnar tveggja stjórnsýslustiga. Það einfaldlega stórbætir öryggi manna. Hv. þingmenn geta síðan gert grín að því og reynt að hártoga það. Staðreyndin er þessi.

Fulltrúar þess flokks sem báðir þessir þingmenn tilheyra áttu sæti í nefnd sem lagði þetta til. Ég tek undir með þeim fulltrúum. Það getur vel verið að það sé einhver innri ágreiningur í Vinstri grænum sem veldur því að þessir tveir þingmenn koma hér og eru annarrar skoðunar. Ég tek það að vísu fram til að öllu sé til haga haldið að þar var (Forseti hringir.) ekki þessi 30 daga frestur.