135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög merkileg ræða. Hv. þingmaður flutti snjallt mál þar sem hann framsagði fyrir þingsályktunartillögu sem ekki er til umræðu hér í dag, tillögu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram um einhverja nefnd. Herra trúr! Hvar eru tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Það er hægt með mörgum aðferðum að verða við því að breyta lögum um stjórnkerfi fiskveiða þannig að það stæðist sennilega þær forsendur sem er að finna í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. En hvaða leið vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð fara? Hv. þingmenn VG koma hér upp í hverju málinu á fætur öðru. Þeir eru góðir og manna snjallastir í að gagnrýna. En því miður sýnir reynslan það og sérstaklega þessi ræða hv. þm. Jóns Bjarnasonar áðan, að þeir hafa aldrei ráð. Það er kannski af því að þeir eru búnir að vera svo lengi í stjórnarandstöðu að þeir hafa ekki vanist því að það er skylda ábyrgra stjórnmálamanna að leggja fram ráð til lausnar þrautum sem upp koma.

Ég spyr. Hvar var í þessum orðaflaumi hv. þingmanns að finna eitt ráð eða eina skoðun á því hvernig VG vill koma til móts við þennan úrskurð mannréttindanefndarinnar? Ætli þar séu ekki uppi jafnmörg viðhorf og til dæmis varðandi stjórnkerfi fiskveiða almennt? Það verður að segjast Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til hróss að þar eru menn svo hugulsamir og svo snjallir að þeir hafa uppi margar stefnur varðandi það mál.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur til dæmis í gegnum áranna rás verið fylgjandi sömu skoðun og ég varðandi stjórn fiskveiða, þ.e. hann vill fyrningarkerfi. Ég hef aldrei skilið það hvaða skoðun hv. þm. Jón Bjarnason hefur haft. Ég gæti hins vegar lagt fram hérna þrjú þingmál sem VG hefur lagt fram í áranna rás um stjórnkerfi fiskveiða og ekkert þeirra er sama málið. Svo ég spyr: (Forseti hringir.) Hvað vill VG?