Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007

Fimmtudaginn 04. september 2008, kl. 16:25:52 (8863)


135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007.

626. mál
[16:25]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég get ekki á mér setið með að koma hingað upp. Þar sem þetta er væntanlega síðasta skýrslan sem Sigurður Þórðarson undirritar vil ég þakka honum fyrir hans góðu störf í gegnum tíðina, bæði þarna og víðar. Það hefur verið mjög mikils virði fyrir stofnunina að hafa traustan mann í brúnni eins og Sigurður vissulega er. Það hefur verið gott að fá hann fyrir nefndina og ræða við hann. Það hefur verið gott að takast á við hann, hann hefur verið hreinskiptinn, talað hreint út um málin, sem vissulega er mikils virði fyrir fjárlaganefnd.

Ég hef áður sagt í þessum stól að ég tel að það sé æskilegt að bjóða út starfsemi Ríkisendurskoðunar eða einhvern hluta starfsemi hennar. Ég undirstrika að það tengist persónu Sigurðar ekki neitt og ég er ekki viss um að manni verði neitt frekar ágengt þótt hann sé horfinn á braut. Mér finnst ástæða til að koma hér upp og undirstrika að öll þau samskipti sem ég hef átt við Sigurð Þórðarson og stofnunina, bæði hér og á öðrum vettvangi, hafa verið mjög traust og fyrir það ber að þakka.