Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 09. september 2008, kl. 21:23:36 (9012)


135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:23]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég talaði um tilraun. Það er innbyggt í minn þankagang að maður gengur áfram og ef maður áttar sig á því að gengið er í vitlausa átt þá gengur maður til hliðar eða tekur nýja stefnu. Maður gengur ekki aftur á bak.

Bent hefur verið á að Tryggingastofnun sinni þessu verkefni í dag og heilbrigðisráðuneytið raunar líka og ég hefði átt að nefna það. Það eru nákvæmlega þessir aðilar sem verið er að færa undir sjúkratryggingastofnun til að halda betur um verkefnið og hindra að menn geti verið að leika sér með það að gera samninga öðruvísi en með gegnsæjum, augljósum og upplýstum hætti þar sem forsendur liggja fyrir. Ég ítreka það aftur að þá erum við að tala um verk innan heilbrigðiskerfisins í núverandi ríkisreknu heilbrigðiskerfi. Það verður örugglega langstærsta verkefnið. Mér finnst þau dæmi sem hér hafa verið nefnd ítreka mikilvægi sjúkratryggingastofnunar. Þannig virkar þetta á mig.

Þegar menn tala um dæmi þess að borgað hafi verið eitthvað meira þá geri ég ráð fyrir að það sé vegna þess að stytta hafi þurft biðlista eða leysa einhver ákveðin tiltekin mál. Þannig er það stundum. Menn geta þá gert þessi verk upp ef þau eru undir sjúkratryggingastofnun, metið þau og fundið aðrar leiðir. Það hefur komið fram í umræðunni að stundum hafi menn fundið fyrir því, m.a. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, að þeir hafi ekki verið nógu öflugir í samningagerðinni, ekki haft nægilega góða fagþekkingu á vinnunni á við þær fagstéttir sem þar hafa verið að vinna. Það er enn ein ítrekun á því hvers vegna við þurfum sjúkratryggingastofnun þar sem við reynum að byggja upp þekkingu til að standa í slíkri samningagerð. (Gripið fram í: En tæknilega?) Nei, það hefur ekkert með tæknileg atriði að gera, hv. þingmaður verður að átta sig á þeirri upptalningu sem ég var með áðan, þ.e. um aðgengið, gæðin og allt sem þar kom fram og þar kemur kostnaðurinn síðast. Það á ekki að slaka á þessum kröfum í neinu og um það var sátt við gerð frumvarpsins og það skiptir máli.