Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 09. september 2008, kl. 23:21:28 (9035)


135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið athyglisvert að hlusta á þessa ræðu og sérstaklega finnst mér athyglisvert að heyra um hinar miklu valdheimildir sem ráðherra á að fá samkvæmt þessu frumvarpi. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur ekkert kynnt sér málið. Ef hann skoðar heilbrigðislögin — sem hann samþykkti sjálfur — um heilbrigðisþjónustu vorið 2007, þá er þar mjög skýrt tekið fram um samningsumboð ráðherra sem er víðfeðmt. Það er skemmst frá því að segja að ef eitthvað er þá skerðir þetta frumvarp þá valdheimild til ráðherra og setur í ákveðinn farveg.

Síðan varð hér heljarinnar mál eða í það minnsta uppistand hjá Vinstri grænum þegar hér var rætt um stjórn stofnunarinnar sem var samþykkt fyrir síðustu jól. Það er eins og hefur komið fram hjá öllum þeim sem hafa talað um þetta mál hér, sérstaklega í heilbrigðisnefnd, búið að skipa stjórn fyrir stofnunina og stjórnarformaður stofnunarinnar hefur komið á fund heilbrigðisnefndar og m.a. hafa nefndarmenn heilbrigðisnefndar úr Vinstri grænum farið nákvæmlega yfir það. Þetta er því eitthvað sem hefur löngu verið gert og það er mjög gott fólk þar inni.

Síðan skil ég ekki af hverju hv. þingmaður er sífellt að klifa á því að forsætisráðherra hafi verið að tala um einkavæðingu á þessum fundi í Valhöll, það gerði hann aldrei. Hann vísaði í stjórnarsáttmálann, sem er skýr, og það vill svo til að það eru sambærileg ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem var samþykktur 1995 eða 1999, tel ég, en hins vegar var það ekki framkvæmt. Það er væntanlega það sem forsætisráðherra var að vísa í þegar hann sagði að menn væru tilbúnir til þess að ganga lengra en áður hafði verið gert. Það er alveg í samræmi við það sem menn hafa verið að gera í nágrannalöndunum með góðum árangri eins og allir sem vilja vita vita, en aðrir hafa ákveðið (Forseti hringir.) að reyna að gera það tortryggilegt.