Hækkun stýrivaxta

Föstudaginn 02. nóvember 2007, kl. 10:38:41 (1145)


135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:38]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kýs að vitna í eina tiltekna setningu í skýrslu Seðlabankans um það að framkvæmdir ríkisins séu að aukast þvert ofan í væntingar. (Gripið fram í.) Já, ég efast ekki um að hann fari rétt með úr skýrslunni. Það er hins vegar ekki rétt hjá Seðlabankanum að framkvæmdir ríkisins séu að aukast þvert ofan í væntingar því að aukning í framkvæmdum ríkisins er tvenns konar, annars vegar vegna samgöngumála og hins vegar mótvægisaðgerðir vegna samdráttar í þorskafla. Samgönguáætlun þingsins var samþykkt í fyrravetur og þorskaflasamdráttur hefur legið fyrir frá því í vor og báðar þessar ákvarðanir eru teknar þegar efnahagsspár — mér liggur við að segja allar efnahagsspár og þar með talin efnahagsspá Seðlabankans sem sennilega var á öðrum endanum og þá á svartsýnni endanum — voru um að hér gæti orðið aukið atvinnuleysi, minnkandi einkaneysla og minnkandi tekjur ríkissjóðs.

Það er einfaldlega rangt í skýrslu Seðlabankans að hann hafi getað verið með væntingar um að framkvæmdir ríkisins yrðu minni en áætlanir sem lágu samþykktar fyrir gáfu til kynna.