Hækkun stýrivaxta

Föstudaginn 02. nóvember 2007, kl. 10:49:33 (1150)


135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra viðhafði hér þau orð að hann ætlaði ekki að rökræða, hvorki við mig né Seðlabankann, um þessa ákvörðun en taldi hana engu að síður óheppilega. Þar með er hagstjórnarstefna ríkisstjórnarinnar að falla í gamalkunnugan farveg, forsætisráðherrann nöldrar en gerir ekki neitt. Þetta er sama hagstjórnarlína og forveri núverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, hafði: nöldra, gagnrýna og draga í efa að tæki Seðlabankans bíti en gera ekki neitt.

Við hæstv. utanríkisráðherra vil ég segja að það sem Seðlabankinn kann að sjá fram undan en ekki í baksýnisspeglinum eru m.a. 2–3 risavaxin álversverkefni á næstu árum sem Samfylkingin lofaði fyrir kosningar að stoppa. Að sjálfsögðu horfir Seðlabankinn til heildarmagns framkvæmda og fjárfestinga í hagkerfinu eins og það lítur út á komandi árum. Það er alveg ljóst að það eru gríðarleg framkvæmdaplön fram undan í stóriðjunni, hjá opinberum aðilum og hjá einkaaðilum.

Hæstv. ríkisstjórn verður að fara að gera það upp við sig, það er ekki seinna vænna, hvort hún ætlar að fylgja þessari nöldurlínu áfram, afneitunarstigslínu, eða fara í viðræður við Seðlabankann, ef hún hefur ekki trú á því að óbreytt stefna dugi, og breyta henni. Hæstv. utanríkisráðherra hafði efasemdir uppi um það á fundi í flokki sínum að peningamálastefnan virkaði. Er þá ekki rökrétt framhald af því að skoða hana og ræða við gagnaðilann, Seðlabankann?

Um hvað er yfirlýsingin frá 28. mars 2001? Hún er um fyrirkomulag stjórnar peningamála á Íslandi, hvorki meira né minna. Það var samið um grundvöllinn, um fyrirkomulag stjórnar peningamála á Íslandi. Forsætisráðherra segir hér: Það stendur ekki til að breyta henni. Þá verðum við að taka því þannig þangað til (Forseti hringir.) annað kemur í ljós að við búum við óbreytt ástand, Seðlabankinn stígi á bremsurnar en ríkisstjórnin á bensíngjöfina.