Tollalög

Mánudaginn 19. nóvember 2007, kl. 15:45:19 (1847)


135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

tollalög.

229. mál
[15:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þær breytingar sem ráðherra lýsti er svo sem ekki mikið að segja en það virðast þó vera tiltölulega eðlilegar breytingar á lögunum miðað við þróunina síðan þau voru sett. Mig langar þó að nefna eitt atriði sem fellur undir tollalögin og mér finnst ástæða til að taka upp sem er sú þróun að tollhöfnum hefur fækkað mikið. Það gerir innflytjendum erfiðara fyrir að flytja inn vörur ef þeir eru með starfsemi sína utan höfuðborgarsvæðisins. Til dæmis þarf að flytja vöru sem kemur að utan og fara á til Ísafjarðar hingað til Reykjavíkur og tilhneigingin er sú að tollafgreiða hana hér, tefja hana í flutningum á leiðarenda.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki koma til greina við þessa lagabreytingu að athuga sérstaklega hvort ekki sé ástæða til að gera breytingar á þessu og gera kleift að tollafgreiða vörur víðar en í Reykjavík þannig að hægt sé að flytja þær beint á leiðarenda. Sérstaklega vil ég hafa í huga Ísafjörð sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna og á eftir að verða mun þýðingarmeiri en staðurinn er nú vegna væntanlegra viðskipta við Grænlendinga og nágranna okkar þar.

Ég held, virðulegi forseti, að það væri töluvert framfaraskref ef breyting af þessu tagi yrði gerð. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að taka þetta til athugunar.