Fjárlög 2008

Mánudaginn 03. desember 2007, kl. 15:43:22 (2454)


135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:43]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Á fimmtudag og föstudag í síðustu viku var gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem liggja fyrir 2. umr. fjárlaga. Ég vísa sérstaklega til þingskjalsnúmers 338 um tillögur sem auk mín þau hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, Guðbjartur Hannesson, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir fluttu og gerðu grein fyrir í umræðu. Ég vil um leið nota tækifærið og þakka þá góðu umræðu sem hér varð á fimmtudag og föstudag. Hún hófst snemma og var búin seint á föstudegi og hélt jafnvel mun lengur áfram en til loka þingfundar á föstudagskvöldið.

Fjárlaganefnd hóf störf 12. september og hefur síðan átt viðtöl við hundruð aðila en einnig hafa aðrar fastanefndir þingsins fjallað um málefnasvið sín. Þær breytingartillögur sem eru lagðar fram af hálfu meiri hlutans nema samtals 1,26 milljörðum til hækkunar samanber sundurliðun 2 í umræddu þingskjali og í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjurnar verði á næsta ári 469,3 milljarðar sem er 8,1 milljarðs kr. hækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður því 37,7 milljarðar sem er hækkun um 6,89 milljarða.

Ég vék að því í umræðu á föstudaginn að mér hefði þótt eðlilegra að breytingartillögur minni hlutans hefðu getað komið til umfjöllunar í fjárlaganefndinni. Hins vegar skilst mér að það sé ekki venjan en við skulum þá horfa til breyttra vinnubragða í þeim efnum þannig að hægt sé að ræða um alla hluti í fjárlaganefndinni frá því að hún hefur störf og fjallar um fjárlög eða fjáraukalög. Það er mjög erfitt að taka afstöðu til tillagna sem ekki hafa verið ræddar.

Að öðru leyti vísa ég til þeirrar umfjöllunar sem hefur átt sér stað við 1. og 2. umr. fjáraukalaga og 1. umr. fjárlaga sem lýtur að breytingum í fjárlagagerð og breytingum í störfum fjárlaganefndar.

Að lokum vísa ég einnig til ræðu minnar á fimmtudaginn við upphaf þessarar umræðu þegar ég greindi frá ýmsum atriðum sem sérstaklega verða skoðuð milli 2. og 3. umr., þar með talin mál sem lúta sérstaklega að málefnasviði eldri borgara (Forseti hringir.) og lífeyrisþega.