PISA-könnun

Föstudaginn 07. desember 2007, kl. 10:42:34 (2881)


135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög sérstakt að sjá viðbrögð hæstv. menntamálaráðherra í dag af því að ráðherrann er fyrst til að berja sér á brjóst þegar við stöndum okkur vel í könnunum. Þá er allt viðkomandi flokki að þakka og viðkomandi stefnu en þegar við fáum slæma einkunn þá skiptir það engu máli, þá er kvartað undan því að bent sé á viðkomandi atriði. Það er mjög skrýtið að sjá þessi viðbrögð hér, virðulegi forseti. Viðbrögðin voru allt önnur fyrst þegar PISA-könnunin kom fram. Þá sagði hæstv. menntamálaráðherra að þetta væru geysileg vonbrigði. Hæstv. ráðherra notaði orðið vonbrigði og auðvitað eru þetta vonbrigði. Ráðherra verður að vera samkvæm sjálfri sér í þessum málflutningi.

Finnar standa sig best í þessari könnun en þeir borga hins vegar minnst í skólakerfið. Það er mjög sérstakt. Norðmenn standa sig verst en þeir borga mest, þannig að fjármagnið virðist ekki skipta öllu máli varðandi árangurinn. Skólakerfin virðast skipta miklu máli. Finnar eru með um 7% sinna barna í sérskólum. Við erum með 1% af því að við erum með þá stefnu að hafa skóla fyrir alla. Við framsóknarmenn teljum það góða stefna og styðjum hana en við verðum að styðja betur við bakið á kennurum landsins. Við verðum að hlúa betur að þeim og við viljum gera allt til þess og standa að baki þeim sem það gera. Við verðum líka að aðstoða foreldrana og brýna fyrir þeim að standa við bakið á börnum sínum í heimanámi. Þetta eru vonbrigði. Við verðum að snúa bökum saman og sækja fram en það þýðir ekkert fyrir ráðherra að hæla sér þegar vel gengur en vilja svo ekki hlusta þegar illa gengur.