Málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB

Þriðjudaginn 17. febrúar 2009, kl. 13:48:49 (3766)


136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:48]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn í umræðuna um Háskólann á Hólum. Mér hefur fundist til skammar hvernig þessi háskóli hefur verið sveltur í langan tíma. Ekki bætti úr skák þegar hann fór úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í menntamálaráðuneytið. Það menntastarf sem verið er að byggja upp í öllum þessum háskólum var unnið í tíð fyrrv. menntamálaráðherra og hún hefði átt að hafa nægan tíma til þess að vinna að þeim málum miklu hraðar og af miklu meiri krafti. Það er Sjálfstæðisflokknum til skammar hvernig staðið hefur verið bæði að Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, hann er líka sveltur, að ég tali nú ekki um Stýrimannaskólann. Hann hefur algjörlega gleymst í allri þessari umræðu um háskólasetur því að það er næstum því búið að leggja hann niður.

Hvað er það sem við þurfum á að halda núna í þessu þjóðfélagi? Við þurfum á grunnundirstöðunum að halda, landbúnaði og sjávarútvegi. Til þess að styrkja það starf þarf að leggja sig fram um að bæta hag þessara menntastofnana.